Húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:15:41 (5127)

2004-03-10 15:15:41# 130. lþ. 81.6 fundur 598. mál: #A húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Orð eru að vísu til alls fyrst en mér fundust athyglisverð orð hæstv. heilbrrh. hér um það fjármagn sem hann hefði til að bæta úr á Sogni og vísaði í fyrri fyrirspurn líka um lokaða öryggisdeild. Mér leikur þá forvitni á að vita: Hvaða fjármagn er til ráðstöfunar, til viðbótar þessum tveimur verkefnum, í önnur verkefni sem ekki teljast síður brýn? Ég er ekki að gera lítið úr þörfinni á viðhaldi á Sogni og þörfinni fyrir lokaða öryggisdeild. Ég hef verið talsmaður þess í langan tíma að það væri meðal þess sem við þyrftum að koma á fót og starfrækja með sóma.

Maður spyr sig líka, við hljótum að spyrja okkur að því að hvaða marki við getum verið með á sömu deildinni þá sem eru sakhæfir og ósakhæfir og þá sem eru að afplána refsingu.

Það er líka alveg ljóst að til þess að geta starfrækt öryggisdeild, eins og fyrri fyrirspurn frá hv. fyrirspyrjanda laut að, þurfum við sennilega að huga að breyttri og nýrri löggjöf.