Húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:17:43 (5129)

2004-03-10 15:17:43# 130. lþ. 81.6 fundur 598. mál: #A húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem tóku hér til máls og hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að þau væru ekki þau sem ég vænti, að hægt væri að tímasetja endurbætur á Sogni.

Ég vil geta þess í framhaldi af orðum hv. þm. Drífu Hjartardóttur að ég er að spyrja hér um athugasemdir sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gerði um húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni. Um kostnaðaráætlun get ég ekki sagt, ég hef ekki fagþekkingu til þess, og hæstv. ráðherra sagði að verið væri að gera kostnaðaráætlun í ráðuneytinu.

Við erum með húsnæði eins og þetta þar sem mjög veikir einstaklingar búa. Við erum með húsnæði þarna sem tekur við og reynir að bæta úr brýnni þörf fyrir þá einstaklinga sem ekki einu sinni hafa hlotið dóm, hvað þá að þeir séu ósakhæfir. Við búum þeim aðstæður sem eru alls ekki í lagi.

Við vitum að heilbrigðiseftirlitið tók aðeins til þess sem það taldi vera í algerum ólestri hvað varðar framtíð þessarar stofnunar og ég spyr hæstv. ráðherra: Hver eru viðhorf hans gagnvart framtíð þessarar stofnunar að Sogni? Hún er yfirfull og þörfin fyrir þá starfsemi sem þarna er er miklu meiri en stofnunin getur annað. Hvaða framtíð sér hæstv. ráðherra?

Viðhaldið hefur verið í lágmarki þrátt fyrir orð hv. þm. Drífu Hjartardóttur og langt undir því sem heilbrrn. hefur farið fram á, langt undir þeirri þörf sem er. Og það er okkar sök, hv. þingmenn, því að fjárveitingavaldið liggur hér en ekki í ráðuneytinu.