Atvinnuráðgjöf

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:24:06 (5132)

2004-03-10 15:24:06# 130. lþ. 81.7 fundur 697. mál: #A atvinnuráðgjöf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hluti af framkvæmd byggðaáætlunar 2002--2005 er að styrkja starfsemi atvinnuráðgjafa. Byggðaáætlunin byggir á fimm markmiðum sem efnislega miða að því að draga úr mismun á lífskjörum fólks milli byggðarlaga í landinu. Þessum markmiðum á að ná m.a. með því að aðstoða byggðarlögin við að laga sig að hröðum breytingum í atvinnuháttum og veita markvissan stuðning við atvinnuþróun er leitt geti til þess að auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Eitt veigamesta tækið til að ná þessum markmiðum er rekstur nýsköpunarmiðstöðvarinnar á Akureyri sem þjónar landsbyggðinni allri. Í byggðaáætluninni er tekið fram að starfsemi nýsköpunarmiðstöðvarinnar eigi að veita atvinnuþróunarfélögunum faglegan stuðning, efla nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni og hafa frumkvæði að þróun viðskiptahugmynda. Meginmarkmiðið sé að auka fjölbreytni atvinnulífsins.

Það fer varla á milli mála að allar byggðir landsins, hvort sem þær eru sjávarbyggðir eða til sveita munu njóta góðs af þessari starfsemi.

Stuðningur við atvinnuþróunarfélögin hefur skipt máli og ekki síður samstarfið við þau. Félögin gegna mikilvægu hlutverki á starfssvæðum sínum. Þar skiptir mestu víðtæk þekking heimamanna á eigin styrkleika og þörfum. Starfsemi nýsköpunarmiðstöðvarinnar á að leiða til þess að starf þeirra geti eflst og dafnað enn frekar og að þau verði betur í stakk búin að takast á við atvinnuþróun. Iðntæknistofnun, með nýsköpunarmiðstöðina innan borðs, á að vera þeim bakland sem veitir faglega ráðgjöf og leiðsögn.

Einn veigamesti þáttur í starfsemi nýsköpunarmiðstöðvarinnar hefur verið rekstur sérstakra stuðningsverkefna. Þau eru margvísleg og misjöfn að umfangi en taka til flestra þátta í starfsumhverfi frumkvöðla og fyrirtækja. Lögð hefur verið mikil áhersla á samstarf við atvinnuþróunarfélögin og aðrar stofnanir í stuðningsumhverfinu um rekstur stuðningsverkefnanna. Atvinnuþróunarfélögin hafa m.a. tekið þátt í sex samstarfsverkefnum með nýsköpunarmiðstöðinni.

Nýsköpunarmiðstöðin hefur sinnt athafnakonum sérstaklega og er verkefnið Brautargengi sniðið að þörfum þeirra. Á námskeiðunum læra þátttakendur um stefnumótun, vöru- og þjónustuþróun, markaðsmál, fjármál, stjórnun og fjölmörg önnur hagnýt atriði. Á þriðja hundrað konur hafa lokið Brautargengi frá 1996, en námskeiðið var fyrst haldið úti á landi 2003. Samkvæmt niðurstöðum könnunar á árangri Brautargengis eru nú 50--60% kvenna sem lokið hafa Brautargengisnámi með fyrirtæki í rekstri.

Eitt veigamesta stuðningsverkefnið er þó sennilega vöruþróun í starfandi fyrirtækjum sem fór af stað í byrjun sl. árs. Af þeim 11 fyrirtækjum sem tóku þátt í verkefninu hafa fimm nú þegar lokið við vöruþróunina og hin stefna hraðbyri í mark.

Þessu stutta yfirliti er ætlað að varpa litlu ljósi á þann stuðning sem iðnrn. hefur beitt sér fyrir til að styðja við atvinnuuppbygginguna á landsbyggðinni. Það þjónar engum tilgangi að draga sérstakar markalínur á milli tekjusvæða og er því ekki fjallað sérstaklega um það sem hv. fyrirspyrjandi kallar láglaunasvæði. Meginmarkmiðið er að iðnrn. hefur lagt áherslu á að stórefla þjónustu við atvinnuþróun á landsbyggðinni sem er öllum opin án tillits til búsetu og efnahags.