Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:42:08 (5139)

2004-03-10 15:42:08# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Frú forseti. Fyrst var spurt um hvernig forsrh. mæti þróun erlendra skulda og greiðslustöðu þjóðarbúsins og hins vegar viðhorf hans til aðvarana sem kynntar voru hér frá Seðlabanka Íslands til innlánsstofnana.

Þegar verið er að ræða erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins er rétt að líta til þess að ríkið hefur verið að greiða niður erlendar skuldir sínar á síðustu árum. Á móti kemur hins vegar að erlendar skuldir viðskiptabankanna jukust um 300 milljarða kr. á liðnu ári. Þessi mikla lántaka fór fram við óvenjulega hagstæð skilyrði. Vextir voru í sögulegu lágmarki og íslenskir bankar leituðu með góðum árangri á nýjar slóðir eftir lánsfé og nutu þar m.a. tiltölulega góðs lánshæfismats alþjóðlegra fyrirtækja á íslenska ríkinu og á bönkunum sjálfum. Erlendar skuldir Íslendinga eru verulegar, hvort heldur sem borið er saman við fyrri ár eða erlendar skuldir annarra þjóða. Af því leiðir að erlendir vextir hafa mikil áhrif. Full ástæða er til þess að mínu mati að vara við því að of geyst sé farið í erlendum lántökum með breytilegum vöxtum af því að vextir séu nú svo lágir. Allt bendir til þess að þeir muni hækka þegar fram líða stundir og muni þá vaxtabyrði lánanna aukast að sama skapi. Við þetta getur bæst gengisáhætta, sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum sem ekki hafa tekjur í erlendum myntum.

Stór hluti erlendra lána, og það er athyglisvert, hefur farið í að fjármagna yfirtökur og umbrot á fyrirtækjamarkaði, t.d. skuldsettar yfirtökur. Einnig eru einhver brögð að því að innlend fyrirtæki hafi flutt bankaviðskipti sín frá erlendum til innlendra banka.

Ég hef áður, og þá á viðskiptaþingi, tekið undir ábendingar og aðvaranir sem birtust í bréfi Seðlabankans til innlánsstofnana í desember og skorað á innlánsstofnanir að taka mark á þessum ábendingum og aðvörunum, enda voru þessi tilmæli bæði vinsamleg og skynsamleg í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við auk nýliðinnar sögu. Á hinn bóginn er rétt að vekja athygli á og benda á að þrátt fyrir auknar skuldir innlánsstofnana er eiginfjárstaða bankanna enn góð.

Þá er spurt hvernig forsrh. meti þá þróun að íslensk heimili séu í auknum mæli að taka lán í erlendum gjaldmiðli með veðsetningu í bílum eða húsnæði svo sem nú er raunin.

Skuldir heimila við innlánsstofnanir hafa trúlega hækkað um 13% á 12 mánuðum til loka janúar. Útlán Íbúðalánasjóðs, sem eru fyrirferðarmikil og að mestu til heimila, jukust um 14% í fyrra. Húsnæðisverð hefur hækkað talsvert umfram almennt verðlag undanfarin ár og er orðið hátt. Dregið hefur úr hækkunum á verði húsnæðis á síðustu vikum. Þrátt fyrir tiltölulega miklar skuldir heimilanna er fjárhagsstaða þeirra tiltölulega traust svo lengi sem bærilega horfir um atvinnu og tekjur.

[15:45]

Varðandi þá þróun að íslensk heimili séu í auknum mæli farin að taka lán í erlendum gjaldmiðlum er rétt að benda á að heimilin taka ákvarðanir sínar um slíkt í ljósi aðstæðna og væntinga um hugsanlega þróun efnahagslífsins á næstu missirum og árum. Engu að síður er rétt, að mínu mati, að vara við slíkri þróun þó það sé einnig varasamt að grípa fram fyrir hendur á fólki og setja skorður við ákveðnum leiðum til lánsfjáröflunar. Rétt er að vekja athygli á því að enn sem komið er eru skuldir heimilanna í erlendum gjaldmiðlum a.m.k. mjög litlar.

Þá er spurt hver sé staða heimila og atvinnulífs og einstakra greina, þess vegna sjávarútvegsins, til að mæta skyndilegri gengislækkun og/eða vaxtahækkunum í ljósi mikilla beinna og óbeinna erlendra skulda?

Hvað fyrirtækin varðar er erfitt að alhæfa um áhrifin af breytingum eins og þeim sem spurt er um. Gengislækkun kæmi útflutningsfyrirtækjum að öðru jöfnu vel sem aftur gæti haft örvandi áhrif á vinnumarkað. Aukin eftirspurn á vinnumarkaði kæmi sumum heimilum vel. Hækkun vaxta mundi aftur á móti verka íþyngjandi fyrir fyrirtækin. Fyrir þau fyrirtæki sem ekki hafa tekjur í erlendri mynt mundi gengislækkunin hafa neikvæð áhrif og stundum mjög neikvæð áhrif, ef þeir notast við erlend hráefni við framleiðslu sína. En fyrir mjög margar greinar hafa gengissveiflur hins vegar lítil áhrif, svo sem flest fyrirtæki í þjónustu. Gengislækkun mundi hins vegar hafa jákvæð áhrif á þau fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendri mynt, svo sem flest sjávarútvegsfyrirtæki. Að öðru jöfnu má ætla að staða heimilanna versni nokkuð við skyndilega gengislækkun og/eða vaxtahækkun, þar sem skuldabyrði lána yxi í kjölfarið.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að nýgerðir kjarasamningar og efnahagsstöðugleiki undanfarinna ára, sem þessir sömu samningar draga dám af, hafa þau áhrif að minni líkur eru nú en oftast áður á skyndilegum breytingum á gengi og vöxtum.

Síðan var spurt um þolmörk íslenskra banka. Í því sambandi vil ég benda á að Fjármálaeftirlitið gegnir mjög mikilvægu hlutverki með eftirliti með íslenskum bönkum og fjármálastofnunum. Fjármálaeftirlitið fylgist vel með breytingum á fjármálamarkaði og hefur staðið sig vel í að þróa nýjar aðferðir í takt við slíkar breytingar. Má þar nefna að á síðustu missirum hefur Fjármálaeftirlitið þróað nýjar aðferðir til að tryggja virkara aðhald með áhættustýringu. Þar á meðal er sérstakt áhættumatskerfi og álagspróf fyrir fjármálafyrirtæki. Þessi nýju tæki liggja til grundvallar nýjum reglum um mat á áhættustigi fjármálafyrirtækja og ákvörðunum um hærra eiginfjárhlutfall.

Að svo stöddu tel ég ekki nauðsynlegt umfram þetta að gera sérstaka úttekt á þolmörkum íslenskra fjármálafyrirtækja.