Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:49:53 (5141)

2004-03-10 15:49:53# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu ætla ég að einblína á skuldir hins opinbera. Eftir að skuldir hins opinbera höfðu aukist mjög á fyrri hluta síðasta áratugar urðu umskipti eftir árið 1995. Frá þeim tíma hafa skuldirnar lækkað ár frá ári, sérstaklega að því er varðar ríkissjóð. Samfara góðum árangri í ríkisfjármálum hefur verið lögð áhersla á að greiða niður skuldir ríkissjóðs en á sama tíma hefur verið allnokkur hallarekstur hjá sveitarfélögunum sem hefur leitt til aukinna skulda þeirra.

Í árslok 1995 voru hreinar skuldir hins opinbera tæplega 40% af landsframleiðslu. En í árslok 2003 eru þær áætlaðar um 25%. Í þessu skiptir lækkun skulda ríkissjóðs öllu máli. Samfara lækkun á skuldum ríkissjóðs njótum við góðs af hagstæðari vaxtajöfnuði. Árið 1998 greiddi ríkissjóður vexti umfram vaxtatekjur sem námu tæplega 8 milljörðum kr. Á þessu ári er reiknað með að þessi vaxtajöfnuður verði nálægt jafnvægi. Þetta þýðir einfaldlega að í stað þess að greiða marga milljarða umfram vaxtatekjur í vaxtagjöld má ráðstafa þeim fjármunum í önnur og mikilvægari verkefni.

Með efnahagsstjórn síðustu ára og þeirri stefnu sem stjórnarflokkarnir vinna eftir hefur náðst mikill árangur í að lækka skuldir ríkissjóðs. Með aðhaldi í ríkisútgjöldum og þeim efnahagslega stöðugleika sem við búum við undir styrkri handleiðslu stjórnarflokkanna munum við halda áfram að lækka skuldir ríkissjóðs, öllum þegnum landsins til hagsbóta.

Hvað hið opinbera varðar í heild sinni er mikilvægt að afkoma sveitarfélaganna verði betri en verið hefur þannig að sveitarfélögin nái einnig að lækka skuldir sínar og draga úr fjármagnskostnaði. Það er a.m.k. að hluta til sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga og er mikilvægt að góður árangur náist í þeim efnum þannig að enn betri árangur náist í að lækka skuldir hins opinbera í heild.