Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:58:42 (5145)

2004-03-10 15:58:42# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:58]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Frú forseti. Skuldir þjóðarbúsins, ekki síst heimila og fyrirtækja, hafa nær tvöfaldast frá árinu 1995 til ársins 2002 á föstu verðlagi, úr 1.069 milljörðum kr. í 1.983 milljarða kr. Skuldir heimilanna hafa á þessum tíma vaxið um 85% og fyrirtækjanna um 130%. Þetta er ógnvekjandi vöxtur, ekki síst ef litið er til erlendu skuldastöðunnar. Erlendar skuldir þjóðarbúsins voru í árslok 2003 1.210 milljarðar kr. á sama tíma og erlendar eignir voru nær helmingi minni, eða 671 milljarður kr. Aukning erlendra skulda er nær 60% á síðustu þremur árum, en aukning erlendra skulda ein og sér á þessum tíma samsvarar nær tvöföldum fjárlögum íslenska ríkisins.

Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvaða áhrif svo gríðarmikið erlent lánsfjármagn hefur á efnahagslífið, gengi krónunnar, stöðugleika, verðbólgu og viðskiptahalla og hvort hlutabréf og fasteignaverð hríðfalli ekki í kjölfarið ef hægir á innstreymi erlends fjármagns.

Hvaða áhrif hefur það þegar einstaklingar og fyrirtæki taka mikla gengisáhættu í lánveitingum og vaxtaákvarðanir erlendra seðlabanka hafa meiri áhrif á skuldastöðu þjóðarbúsins en vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands?

Bankarnir eru líka farnir að ota gengistryggðum lánum að heimilunum eins og þeir gerðu með yfirdráttarlánin, sem er verulega áhættusamt þegar tekjur heimilanna eru í íslenskum krónum.

[16:00]

Þetta erlenda fjármagn er líka nýtt af fyrirtækjum og stórum fjármagnseigendum til að taka þátt í matadorspilinu og græðgisvæðingunni sem nú tröllríður þjóðfélaginu.

Það er vissulega umhugsunarvirði hvaða áhrif ákvarðanir og fjárfestingar valdablokkanna í viðskiptalífinu geta haft á efnahagslífið, stöðu smærri fyrirtækja og heimilanna í landinu. Það virðist stefna í að aðgerðir þessara fáeinu risafjármagnseigenda, sem smátt og smátt eru að eignast Ísland, skipti orðið meira máli fyrir þjóðarbúið en aðgerðir stjórnvalda.