Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 16:00:48 (5146)

2004-03-10 16:00:48# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er í þessu eins og öðru að það eru tvær hliðar á hverjum peningi. Á móti skuldum standa líka eignir. Við þekkjum það af hagtölum að eignir íslensku þjóðarinnar hafa vaxið gríðarlega mikið. Að sönnu skuldar íslenska þjóðin um 1.200 milljarða erlendis en hún á líka erlendar eignir upp á nærri 700 milljarða kr.

Við þekkjum það að íslenskar fjölskyldur eiga miklar eignir í lífeyrissjóðsverðmætum og bankakerfið stendur vel, efnahagsreikningar bankanna eru traustir þrátt fyrir að þeir hafi vaxið bæði eignamegin og skuldamegin. Ef við skoðum því stöðuna í heild er gott jafnvægi á móti eignum og skuldum og engin ástæða til að draga upp þá mynd að hér séu efnahagsmálin að fara á hliðina og við séum búin að steypa okkur í skuldir sem íslenska þjóðin ræður ekki við að greiða. Þvert á móti, við höfum aldrei fyrr í sögu íslensku þjóðarinnar átt aðrar eins eignir og við eigum nú.

En því er ekki að leyna að það eru líka hættumerki því það er ekki bara allt á annan veginn. Við sjáum það á ýmsum tölum að við skuldum meira, eða íslensk heimili skulda meira sem hlutfall af ráðstöfunartekjum en aðrar þjóðir og hlutfall erlendra skulda miðað við þjóðarframleiðslu er óvíða hærra en hér á landi. Þetta eru auðvitað hættumerki og við eigum að bregðast við þeim með því að stuðla að því að hlutföllin lækki.

Það er líka hættumerki að íslenskir bankar skuli taka svo mikið af lánum erlendis og endurlána innan lands vegna þess að greiðendurnir eru mjög viðkvæmir fyrir breytingum á vöxtum erlendis og breytingum á gengi, sem geta mjög raskað greiðslugetu lántakendanna með skömmum hætti og við höfum reynslu af því sem ekki er góð. Þess vegna eigum við að taka mark á þessum fyrirboðum og bregðast við þeim með mjög ákveðnum hætti.