Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 16:03:00 (5147)

2004-03-10 16:03:00# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að færa málið til umræðu á hinu háa Alþingi.

Í síðasta riti Seðlabanka Íslands, Peningamálum, sem fjallar um efnahagsmál kemur fram að Íslendingar eru á meðal skuldugustu þjóða heims, hvort sem litið er til einkageirans, skulda heimila eða fyrirtækja og hvort sem litið er til vergra eða hreinna skulda þjóðarbúsins.

Hins vegar, eins og kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Stefánssonar, eru skuldir hins opinbera ekkert sérstaklega miklar. En ég tel réttara að skoða myndina í heild sinni. Ýmsar skýringar eru á skuldum þjóðarinnar, svo sem ungur aldur þjóðarinnar, hátt hlutfall eignaríbúða, en síðan eru aðrar ástæður, svo sem að stjórnvöld hafa komið á framseljanlegu kvótakerfi og gert fyrirtækjum kleift að veðsetja sameiginlegar eignir landsmanna og draga úr greininni gríðarlega mikla fjármuni sem hafa verið fjármagnaðir m.a. með erlendri lántöku.

Það sem gerir skuldsetninguna mögulega er að nú um stundir eru mjög lágir vextir í útlöndum. Erlend lán eru yfirleitt tekin með breytilegum vöxtum og ef vextir fara hækkandi mun það án efa verða erfiður baggi fyrir fyrirtækin í landinu sem hafa fjármagnað sig með þessum hætti og þar með fyrir þjóðarbúið í heild sinni.

KB-banki hefur nýlega tekið saman mjög áhugaverða skýrslu um hlutabréf og gengi krónunnar þar sem fjallað er um tengsl hækkandi gengis hlutabréfa og erlendar lántökur, en erlendrar lántökur hafa haft bein áhrif á gengi íslensku krónunnar. Það er alveg rétt sem fram kom í máli eins hv. þm. að valdabarátta á mörkuðum á síðustu mánuðum hefur leitt til geysimikillar erlendrar lántöku og þar með til hækkunar á gengi krónunnar. Það er ákveðin hætta á að þanþoli sé náð og við megum búast við skyndilegum gengislækkunum.