Atvinnumál kvenna

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:03:26 (5152)

2004-03-10 18:03:26# 130. lþ. 81.8 fundur 698. mál: #A atvinnumál kvenna# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að í byggðaáætlun 2002--2005 eru verkefni sem lúta að konum á landsbyggðinni. Byggðastofnun vinnur nú að ýmsum verkefnum á þessu sviði, svo sem samstarfsverkefni með félmrn. um atvinnu- og jafnréttisráðgjafa þar sem sérstaklega er leitast við að aðstoða og gefa konum í atvinnurekstri á landsbyggðinni ráð. Hv. þm. Birkir J. Jónsson kom að þessu máli hér vegna fyrirspurnarinnar sem síðast var á dagskrá á undan þessari.

Þá hefur Byggðastofnun nú nýlega lokið athugun á skiptingu styrkja stofnunarinnar og atvinnuþróunarfélaga eftir kynjum. Hv. fyrirspyrjandi kom inn á það mál.

Iðnrn. hefur einnig tekið þátt í samstarfsverkefninu ,,Lifandi landbúnaður`` með landbrn., félmrn. og Bændasamtökunum þar sem markmiðið er að fá konur til aukinna áhrifa í landbúnaði.

Flest þau verkefni sem unnið er að á vettvangi iðnrn. og lúta að stuðningi við konur eru almenn og nýtast því landsbyggðarkonum eins og öðrum konum. Hér má t.d. nefna þjónustu við konur í atvinnurekstri hjá Impru. Lögð er sérstök áhersla á það hjá Impru að veita konum sem hyggja á atvinnurekstur aðstoð við stofnun fyrirtækis.

Lánatryggingasjóður kvenna er annað verkefni en markmið sjóðsins er að styðja konur til nýsköpunar í atvinnulífinu með því að veita ábyrgðir á allt að helmingi lána sem þær taka hjá Landsbanka Íslands til að fjármagna tiltekin verkefni.

Þá má nefna Brautargengi en það er námskeið fyrir konur í sambandi við stofnun og rekstur fyrirtækja. Impra stendur fyrir námskeiðinu með stuðningi sveitarfélaga. Síðastliðið haust var námskeiðið haldið í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.

Ég hef ekki látið skoða sérstaklega stöðuna í atvinnumálum kvenna á láglaunasvæðum eins og hv. þm. kýs að nefna það, enda eru þau ekki skilgreind það ég best veit.

Ég hef ákveðið að nýtt verkefni iðn.- og viðskrn. í nýrri framkvæmdaáætlun um aðgerðir í jafnréttismálum sem félmrh. mun leggja fyrir Alþingi á næstunni verði atvinnurekstur kvenna á landsbyggðinni. Það verður á forræði Byggðastofnunar.

Ég vil leggja áherslu á það verkefni iðn.- og viðskrn. að stuðla að nýsköpun og fjölbreyttari atvinnurekstri kvenna á landsbyggðinni. Það er hins vegar ekki á forræði ráðuneytisins að skoða atvinnumál kvenna í víðum skilningi.

Vegna þess að hv. þm. talaði sérstaklega um þá athugun sem ég kom einnig inn á og varðar Byggðastofnun, styrkveitingar þaðan þar sem konur báru frekar skarðan hlut frá borði, er það stjórn stofnunarinnar sem fer með þau mál. Ráðherra, ég í því tilfelli, hefur ekki afskipti af daglegum rekstri Byggðastofnunar og ég get ekki í raun sagt henni fyrir verkum, hvorki hvað þetta varðar né annað. Ég held að það sé full ástæða til að taka það sérstaklega fram. Hins vegar var athyglisverð þessi úttekt sem gerð var og sýnir, a.m.k. hvað varðar þann sem skráður er fyrir styrkbeiðnum, að karlmenn eru í miklum meiri hluta þeirra sem fá jákvæð viðbrögð.