Atvinnumál kvenna

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:09:38 (5155)

2004-03-10 18:09:38# 130. lþ. 81.8 fundur 698. mál: #A atvinnumál kvenna# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:09]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Svör ráðherra valda vissum vonbrigðum nú eins og svör hennar við fyrri fyrirspurn frá mér hér í dag. Það kemur í ljós í máli hennar aftur og aftur að hún hefur ekki skoðað sérstaklega þau svæði sem í hvað mestum vanda eiga, þ.e. þau svæði sem lægst hafa launin. Reyndar segist hún ekki hafa skoðað það hvaða svæði sérstaklega séu láglaunasvæði. Ég held að ekki þurfi mjög mikla þekkingu á landinu til að vita hvar tekjurnar eru lægri en meðaltal á landsvísu.

Ég get upplýst ráðherra um það t.d. að í hinu gamla kjördæmi Norðurlandi vestra eru meðaltekjur 14% undir landsmeðaltali og á sumum svæðum þar mun lægri. Ef ekki er ástæða til að skoða málefni slíkra svæða sérstaklega umfram önnur veit ég ekki hvað við erum að gera hér í stjórn þessa lands. Því miður er það svo að altækar aðgerðir gagnast ekki alltaf, virðulegi ráðherra.

Þó að ráðherra hafi ekki afskipti af daglegum störfum Byggðastofnunar hlýtur ráðherra þó að taka mið af þeim skýrslum sem koma frá stofnuninni og miða stefnumótun sína til framtíðar við niðurstöður þeirra. Þar kemur m.a. fram að konur hljóta mun minni styrki, bæði sækja þær minna um sem segir einhverja sögu sem þyrfti að kanna, þær fá færri styrki og þær fá lægri styrki. Alla þessa sögu hljótum við að taka til skoðunar og athuga hvað við getum gert til að breyta þessu máli. Annars erum við ekki starfi okkar vaxin, herra forseti.