Verðtrygging lána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:14:09 (5157)

2004-03-10 18:14:09# 130. lþ. 81.9 fundur 700. mál: #A verðtrygging lána# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Herra forseti. Íslensk heimili eru með þeim skuldsettustu í heimi. Skuldir þeirra sem hlutfall af ráðstöfunartekjum voru um 182% í árslok 2001. Þetta er með því allra hæsta sem þekkist í heiminum og því hafa vaxtagreiðslur og aðrar tengdar greiðslur, eins og greiðsla verðtryggingar til viðbótar háum vöxtum, mikið að segja um ráðstöfunartekjurnar.

Í þeirri fyrirspurn sem ég legg hér fyrir hæstv. viðskrh. er ekki spurt um vextina, þó að ekki væri vanþörf á eins og þeir eru, heldur einungis um verðtryggingarþátt lánanna.

Ég minnist þess úr kosningabaráttunni fyrir tæpu ári að mikið var rætt um stöðugleika og hve vel hefði tekist að koma böndum á verðbólgu. Ekki er því óeðlilegt að velta fyrir sér hvort verðtrygging lána sé jafnvel tímaskekkja í öllum þessum stöðugleika sem nú ríkir.

[18:15]

Óþarfi er að rifja upp það ástand sem ríkti þegar verðtrygging var tekin upp og hvernig óðaverðbólga lék þá eignir manna og lækkaði einnig skuldir þeirra sem aðgang höfðu að lánsfé. Ekki verður séð að núverandi staða efnahagsmála kalli á verðtryggingu skuldbindinga og eðlilegast væri að lánveitendur byggju við það hér eins og í flestum nágrannalöndum okkar að ákvarða vexti á hverjum tíma í samræmi við viðskiptakjör þeirra hjá Seðlabanka og almennar horfur í efnahagsmálum og á lánamarkaði.

Þegar mismunur vaxta er skoðaður á verðtryggðum lánum bankanna og þeim lánum sem bera óverðtryggða vexti kemur í ljós að oft eru vextir að viðbættum verðbótum jafnvel hærri en þeir vextir sem lántakendum er gert að greiða af óverðtryggðum skuldbindingum. Þetta er mjög undarlegt þar sem áhætta bankanna af verðtryggðum lánum er minni en af þeim óverðtryggðu. Lánstíminn getur þó spilað einhverja rullu og samanburður er því erfiður. Það þarf að fá fram afstöðu þeirra sem nú ráða í þessum málum til þess hvort til greina komi að breyta lögum nr. 38 frá 26. maí árið 2001, um vexti og verðtryggingu, í þá veru að afnema verðtryggingu, annars þarf að fá fram hvort hæstv. ráðherra telji að núverandi verðtrygging sé sanngjörn og eðlileg og skuli standa óbreytt áfram.

Árið 1996 spurði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þáv. viðskrh., Finn Ingólfsson, hliðstæðra spurninga og þá taldi hann ekki tímabært að afnema verðtryggingu.

Í tilraun til að fá fram skýr svör hæstv. ráðherra og komast að því hvort afstaða innan Framsfl. sé enn óbreytt leyfi ég mér, herra forseti, að bera fram eftirfarandi spurningar:

1. Telur ráðherra verðtryggingu lána enn eiga rétt á sér miðað við stöðuna í efnahagsmálum landsins?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir afnámi verðtryggingar lána til einstaklinga og fyrirtækja?

3. Er í gangi á vegum ráðuneytisins einhver skoðun á kostum og göllum núverandi verðtryggingar? Ef svo er, hvenær má vænta niðurstöðu úr henni? Ef svo er ekki, mun ráðherra beita sér fyrir slíkri skoðun á næstunni?