Verðtrygging lána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:17:16 (5158)

2004-03-10 18:17:16# 130. lþ. 81.9 fundur 700. mál: #A verðtrygging lána# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Því er til að svara að lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 kveða á um heimild til verðtryggingar en ekki skyldu. Lánveitendum og útgefendum verðbréfa er því í sjálfsvald sett hvort þeir kjósa að verðtryggja fjárskuldbindingar sínar. Það fer eftir aðstæðum og eftirspurn eftir bréfum hvort skuldbindingar eru verðtryggðar.

Raunin hefur orðið sú að langflestar skuldbindingar eru verðtryggðar og hefur það lítið breyst á undanförnum áratug. Það geta verið margar ástæður fyrir því. Ein þeirra er sjálfsagt sú að fjárfestar á verðbréfamarkaði vilja verðtryggð bréf. Verðtryggð bréf eru einnig sífellt að verða vinsælli kostur á erlendum verðbréfamörkuðum.

Önnur ástæða er sú að raunvextir verðtryggðra lána hafa um langan tíma verið tveimur til þremur prósentustigum lægri en óverðtryggðra. Það er sem sagt ódýrara fyrir einstaklinga og fyrirtæki að taka verðtryggð lán en óverðtryggð. Ástæðan er einföld, öryggið sem fylgir verðtryggingunni leiðir til þess að lánveitendur treysta sér til að bjóða lægri vexti en ella. Lánveitendur þurfa að taka sér hærra áhættuálag á óverðtryggðum lánum.

Ég tel því ekki rétt að spyrja eins og hv. þm. gerir, hvort verðtrygging eigi rétt á sér. Það ríkir samningsfrelsi á þessu sviði. Það þyrfti sérstaka lagasetningu til að banna verðtryggingu. Það er ekkert sem bendir til þess að verðtrygging stefni stöðugleika í hættu. Reynsla síðustu tólf ára sýnir það svo ekki verður um villst að stöðugleiki og verðtrygging fjárskuldbindinga getur farið saman.

Á einu sviði ríkir þó ekki samningsfrelsi. Seðlabankinn hefur heimild samkvæmt vaxtalögum til að ákveða lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána. Að mati Seðlabankans er óheppilegt út frá stýringu peningamálastefnunnar að skammtímaskuldbindingar séu verðtryggðar. Því er í reglum Seðlabankans kveðið á um að óheimilt sé að verðtryggja styttri útlán en til fimm ára og styttri innlán en til þriggja ára.

Spurningu þingmannsins vil ég því svara svo að ég hef ekki í hyggju að beita mér fyrir afnámi verðtryggingar. Það er engin skoðun á vegum ráðuneytisins í gangi um þessar mundir á kostum og göllum verðtryggingar. Hins vegar er stutt síðan ég óskaði eftir því að Seðlabankinn skoðaði kosti þess að festa vexti verðtryggðra innstæðna og lána. Seðlabankinn svaraði því svo til að ekki væri rétt að fyrirskipa að vextir verðtryggðra skuldbindinga væru ætíð fastir. Byggðist það sjónarmið bankans á því að best færi á að þetta væri samningsatriði á milli aðila. Einnig var það mat bankans að hlutdeild fastra vaxta í verðtryggðum skuldum heimila væri nú þegar orðin afar há.