Verðtrygging lána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:24:19 (5162)

2004-03-10 18:24:19# 130. lþ. 81.9 fundur 700. mál: #A verðtrygging lána# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir hrein og bein svör. Það er oft sem maður kemur hér upp og spyr spurninga og eftir að búið er að fara í gegnum umræðu og svör þá er maður litlu nær. En hér veit ég nákvæmlega hvað það er sem hæstv. ráðherra ætlar að beita sér fyrir og hvað ekki.

Hæstv. viðskrh. sagðist ekki hafa í hyggju að beita sér fyrir því að afnema heimild til verðtryggingar. Þetta eru ákaflega skýr skilaboð af hálfu hæstv. ráðherra og gott fyrir hina skuldsettu Íslendinga vítt og breitt um landið að vita að hæstv. ráðherra mun ekki á næstunni alla vega beita sér fyrir því að verðtrygging skuldbindinga, lána, jafnvel þótt verðbólgan sé eins lág og raun ber vitni, verði aflögð.

Það kom einnig skýrt fram hjá hæstv. ráðherra að engin skoðun er í gangi heldur. Það er ekkert verið að skoða hvort nú væri sniðugt eða rétti tímapunkturinn til þess að leggja af verðtryggingu. Skýrari geta skilaboðin í raun ekki verið.

Þriðju skilaboðin sem mér fannst hæstv. ráðherra flytja okkur í svari sínu voru að vextir af verðtryggðum lánum haldi áfram að vera breytilegir en ekki fastir eins og gerist þó meðal siðmenntaðra þjóða þannig að ekki séu bæði breytilegir vextir vegna verðtryggingar og líka breytilegir vextir vegna þess að bankarnir hafa leyfi til að breyta skilmálum eftir á.

Herra forseti. Það sem hæstv. ráðherra virðist ekki gera sér grein fyrir þegar hún talar um að þetta sé samningsatriði milli bankanna og lántakenda er að samningsstaðan er náttúrlega alls ekki góð þegar við horfum á skuldsetta lántakendur. Það eru bankarnir sem setja kjörin. Það vita allir og það heitir ekkert annað en að berja höfðinu við steininn að halda því fram að vextir á Íslandi séu samningsatriði.