Verðtrygging lána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:26:29 (5163)

2004-03-10 18:26:29# 130. lþ. 81.9 fundur 700. mál: #A verðtrygging lána# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er talað um að það sé mikið hagsmunamál heimilanna að afleggja verðtryggingu. En meðan það er þannig, eins og ég lét koma fram í máli mínu áðan, að raunvextir verðtryggðra lána eru lægri, 2--3% lægri, þá get ég ekki haldið því fram að það sé betra fyrir heimilin að verðtryggingin sé aflögð. Ég er ekkert kaþólskari en páfinn í þessum efnum. Ég er alveg tilbúin að skoða þetta ef það sýnir sig að það er betra fyrir hinn almenna borgara og Íslendinga að þetta verði aflagt. En það er bara það sem ég hef ekki sannfærst um enn þá og þess vegna hef ég ekki í huga að koma hér fram með frv. sem mundi breyta þessu ákvæði.

Það er rétt sem hér kom fram að verðtryggingin er mjög sérstök. Hún er í raun íslenskt fyrirbæri og að því leyti til er hún óæskileg að það er erfitt að útskýra þetta fyrir öðrum þjóðum. Kannski er það ekkert svo oft sem þarf á því að halda. Engu að síður er verra að vera með eitthvert fyrirkomulag hér, miðað við það að við erum á þessum opna markaði Evrópu, sem aðrar þjóðir átta sig ekki á hvað er. Að því leyti til finnst mér þetta nú ekkert sérstaklega gott. Engu að síður er það staðreynd að raunvextirnir sem skipta öllu máli eru lægri á þessum verðtryggðu lánum.

Það er þetta með belti og axlabönd. Það var ég, held ég, sem nefndi það hér í fyrra einhvern tíma, eða hversu langt síðan það var nú, að bankarnir hefðu bæði belti og axlabönd. Það varðar þá þessa breytilegu vexti. Ég hef borið það upp við Seðlabankann hvort hann sjái ekki ástæðu til þess að gera þarna breytingu á. Svörin voru nú ekki í þeim dúr. En allt er þetta til skoðunar og verður eflaust áfram.