Skólagjöld í Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:28:58 (5164)

2004-03-10 18:28:58# 130. lþ. 81.11 fundur 209. mál: #A skólagjöld í Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Fjárhagsstaða Háskóla Íslands er alvarleg. Háskólinn þarf að óbreyttu annaðhvort að vísa um 900 nýnemum frá námi næsta haust eða að taka upp harkalegar fjöldatakmarkanir verði ekki við stöðunni brugðist með öðrum hætti. Stjórnvöld hafa ekki sinnt óskum háskólans um auknar greiðslur í takt við fjölgun nemenda og kennslusamningurinn fyrir árið 2004 breytir engu þar um. Hann hafði hvorki áhrif á fjárveitingu þessa árs né á hámark fjölda virkra nemenda sem nú eru um 5.200. Háskólinn spáir því að fjöldi virkra nemenda verði að óbreyttu 5.750 haustið 2004 og aukningin svari til u.þ.b. 900 skráðra nemenda.

Hæstv. menntmrh. lét þau orð falla í viðtali við Stöð 2 þann 5. febrúar að Háskóli Íslands yrði eins og aðrar ríkisstofnanir að halda sig innan þess ramma sem honum væri settur og þar með kennslu- og rannsóknarsamningsins við ríkið sem kveður á um hve marga nemendur skólinn megi taka inn.

[18:30]

Með orðum hæstv. menntmrh. á sér í rauninni stað gagnger stefnubreyting í málefnum Háskóla Íslands. Þjóðskólinn er ekki lengur opinn skóli þeim sem þangað sækja og hafa til þess tilskilin réttindi. Með þessari yfirlýsingu hafa fjöldatakmarkanir við skólann verið staðfestar sem yfirlýst stefna nýs hæstv. ráðherra menntamála. Því þarf hæstv. ráðherra að svara því skýrt hvort sú sé raunin. Er hún að fyrirskipa fjöldatakmarkanir í Háskóla Íslands eða á skólinn að standa þeim opinn sem þangað sækja og á því að leggja honum til það fjármagn sem hann þarf til að geta tekið á móti þeim nemendum sem þangað sækja?

Auk fjöldatakmarkana hefur hæstv. ráðherra slegið úr og í hvað varðar upptöku skólagjalda við ríkisháskólana. Einnig þar verður að tala skýrt. Ef fjármagna á grunnnám í ríkisháskólunum með háum skólagjöldum er vegið hreint og klárt að jafnrétti til náms, hækkandi menntunarstigi og um hreina kúvendingu er að ræða í íslenskri menntapólitík.

Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort til athugunar í ráðuneytinu sé að taka upp frekari skólagjöld í Háskóla Íslands eða að taka upp strangari inntökupróf eða frekari fjöldatakmarkanir í skólanum til að mæta þeirri brýnu fjárþörf sem þar er uppi.

Háskólinn og háskólastigið allt býr við allt of lág fjárframlög og skortur á skýrri stefnumörkun bætir ekki stöðuna. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD frá árinu 2003 kemur fram að opinber fjárframlög til háskólastigsins á Íslandi voru einungis um 0,8% af landsframleiðslu á meðan annars staðar á Norðurlöndunum var varið á bilinu 1,2--1,7% til háskólastigsins, sem er allt að því tvöfalt hærra.