Skólagjöld í Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:40:23 (5169)

2004-03-10 18:40:23# 130. lþ. 81.11 fundur 209. mál: #A skólagjöld í Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:40]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir umræður. Þó að við mörg hér megum vart mæla fyrir hæsi og kvefi þá vindum við okkur nú í það samt.

Ég tek undir með ráðherra að umræðan um framtíðarrekstur og rekstrarform háskóla almennt er þörf og nauðsynleg og allt það. En það stendur eftir að hæstv. ráðherra svaraði því ekki með neinum hætti hvernig eigi að leysa þann bráðavanda sem Háskóli Íslands stendur frammi fyrir hér og nú. Stjórnvöld háskólans hafa látið í það skína að að óbreyttu þurfi þau að taka upp harkalegar fjöldatakmarkanir eða leita heimilda til hækkunar skólagjalda.

Í þessari brýnu stöðu verða að koma skýr skilaboð frá hæstv. ráðherra menntamála af því að skólinn er í kreppu á meðan þessu er ósvarað. Háskóli Íslands er í kreppu af því að þar hefur nemendum sem betur fer fjölgað töluvert á undanförnum árum. Vissulega eru mjög margir nemendur þarna í hálfu námi eða hvernig sem má orða það. En eftir stendur þessi vandi skólans. Hann þarf að leysa nú þegar svo að skólinn geti haldið áfram að blómstra og dafna.

Ég skora því á hæstv. ráðherra að svara því hreint og klárt í síðara erindi sínu núna á eftir hvernig skólinn eigi að bregðast við þessum bráðavanda. Á hann að taka upp fjöldatakmarkanir? Á hann að óska eftir heimild til hækkunar á skólagjöldum á grunnnám til að bera rekstur sinn á næstunni?

Þegar þessum spurningum hefur verið svarað er ekkert því til fyrirstöðu að vinda sér í opinskáa og hreinskilna umræðu um það hvernig í framtíðinni sé best að haga málefnum háskólastigsins og Háskóla Íslands. Ég skora á hæstv. ráðherra að svara þessu skýrt.