Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:51:50 (5173)

2004-03-10 18:51:50# 130. lþ. 81.12 fundur 680. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Hér ræðum við ákaflega mikilvægt mál sem er ábyrgðarmannakerfið á námslánum. Við þekkjum ábyggilega öll dæmi þess að ekki eiga allir sem hyggja á að mennta sig á háskólastigi sterka að og því má segja að jafnrétti til náms sé í raun ekki að fullu komið á meðan ábyrgðarmannakerfið er við lýði.

Hæstv. ráðherra talaði um hugmyndir sem menn hafa verið að velta á milli sín varðandi ábyrgðardeild lána eða ábyrgðarlánasjóð einhvers konar, og ég held að slíkar hugmyndir séu allrar athygli verðar og menn þurfi að skoða hvort slíkt geti komið í stað sjálfskuldarábyrgðar skyldmenna á lán sem námsmenn verða að taka og taka hjá hinu opinbera.

Námslán munu hækka ef skólagjöld koma á, það er engin spurning, og því mun enn aukast ábyrgð skyldmenna ef skólagjöld koma inn í námslán.