Ábyrgðarmenn námslána

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:56:14 (5176)

2004-03-10 18:56:14# 130. lþ. 81.12 fundur 680. mál: #A ábyrgðarmenn námslána# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Um spurningu hv. fyrirspyrjanda um ábyrgðarmennina vil ég enn og aftur ítreka að við erum með þetta í endurskoðun. En við megum heldur ekki vanmeta þau hugsanlegu efnahagslegu áhrif sem við höfum af því að það eru ábyrgðarmenn. Við þekkjum það flestöll sem höfum tekið námslán að auðvitað er það líka ákveðið aðhald fyrir alla þegar ábyrgðarmenn eru á lánum. Menn hafa verið að tala um að foreldrar geti þá leynt og ljóst fylgst með því hvernig börnin greiða af lánunum. Hvort það er kostur eða galli ætla ég ekkert að segja annað en það að ég held að það geti hugsanlega haft miklar fjárhagslegar afleiðingar fyrir sjóðinn ef við höfum ekki áfram þetta virka aðhald varðandi endurgreiðslurnar. Að sjálfsögðu munum við fara vel yfir þetta og ræða það.

Hvað varðar spurningu hv. þm. Jóns Kr. Óskarssonar varðandi vanskilin hjá LÍN þá er ég ekki með á takteinum hver þau eru, en ég beini því til hv. þm. að hann gæti komið með spurninguna í fyrirspurnarformi og þá er sjálfsagt að koma með skriflegt svar til hv. þm.

Varðandi skólagjöldin fram til þessa, sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á áðan, hefur LÍN að sjálfsögðu lánað nú sem hingað til fyrir skólagjöldum, m.a. við Bifröst og Háskólann í Reykjavík, og styrkir það m.a. þá fullyrðingu að verið er að styðja og efla það enn betur að hér ríki það ástand að fólk standi frammi fyrir jöfnum tækifærum til náms. Því kemur lánasjóðurinn m.a. fólki til hjálpar þegar á þarf að halda varðandi skólagjöld.