Svæðisútvarp

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 19:04:46 (5180)

2004-03-10 19:04:46# 130. lþ. 81.13 fundur 668. mál: #A svæðisútvarp# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[19:04]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún bar fram. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að þjónustan á þeim svæðum þar sem svæðisútvörp eru rekin er góð, og sérstaklega má kannski segja að fréttir af þessum svæðum séu meira áberandi en af þeim svæðum þar sem ekki eru svæðisútvörp. Þar eru jú starfsmenn í fréttaöflun að meira leyti en á þeim stöðum þar sem ekki er svæðisútvarp.

Ég hef velt þessu fyrir mér út frá jafnræðissjónarmiðinu hvernig á því geti staðið að Ríkisútvarpið telji sig ekki eiga eða þurfa að reka svæðisútvarp á ákveðnum svæðum þegar það gerir það á öðrum svæðum sem búa við mjög svipuð skilyrði, jafnvel mjög svipaða fjarlægð frá Reykjavík og svipuð skilyrði eins og þau svæði sem ég er hér um að fjalla.

Hæstv. ráðherra sagði að þetta væri innri ákvörðun útvarpsins og það mun einfaldlega þýða að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og jafnvel á kjördæmavísu þurfa þá að beita sér fyrir því að óska skriflega eftir svörum frá Ríkisútvarpinu um það af hverju það treysti sér ekki til að reka svæðisútvarp á Suðurnesjum þegar við horfum til þess hve glæsilega það gerir það bæði fyrir vestan og eins á gamla Suðurlandinu. Það eina sem við sem búum á þessu svæði getum í raun gert nú til að ýta á eftir þessu máli, miðað við svör hæstv. ráðherra, er að óska eftir því við Ríkisútvarpið að það útskýri þá fyrir okkur hver rökin séu gegn því að reka útvarp á Suðurnesjum þegar útvarpið telur sig geta með jafnræðissjónarmiðum rekið útvarp á öðrum stöðum.