Danskennsla og ræðumennska í grunnskólum

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 19:09:25 (5182)

2004-03-10 19:09:25# 130. lþ. 81.14 fundur 712. mál: #A danskennsla og ræðumennska í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JKÓ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[19:09]

Fyrirspyrjandi (Jón Kr. Óskarsson):

Herra forseti. Ástæða þess að ég legg fram þessar fyrirspurnir er að ég tel það geysilegt forvarnastarf að börnum og unglingum sé veitt danskennsla og kennd ræðumennska og fundarsköp í grunnskólum landsins.

Mér er kunnugt um að í sumum grunnskólum landsins sé a.m.k. kenndur dans. Ég veit bara að fyrir drengi er sérstaklega mikið atriði að þora að bjóða stúlku upp og geta dansað. Við vitum að margur drengurinn hefur fengið sér eitthvað til að styrkja sig, til að telja í sig kjark til að bjóða upp stúlku.

Stúlkurnar eru að mínu áliti opnari gagnvart dansinum, a.m.k. dönsuðu sumar hverjar í frímínútum í mínu ungdæmi og rokkuðu alveg á fullu. Við drengirnir vorum dolfallnir yfir snilli þeirra.

Að kenna ræðumennsku og fundarsköp er byggt á sömu grundvallarhugsun. Það að geta haldið ræðu, staðið upp og tjáð sig er virkilega mikið atriði fyrir alla. Það stuðlar að öryggi fyrir viðkomandi, bæði í skóla og utan skóla, hann verður öruggari með sig. Viðkomandi verður hugsanlega betri nemandi, getur komið betur fyrir sig fyrirspurnum og svörum frá sér í kennslustundum.

Nokkrir foreldrar hafa tjáð sig um þessi atriði við mig. Sumir hafa velt því fyrir sér hvort kennsla í dansi gæti t.d. að einhverju leyti komið í staðinn fyrir sundkennslu eða leikfimikennslu. Á því eru sjálfsagt skiptar skoðanir en rétt er að skoða það atriði. Dansinn er mikil hreyfing, tjáning og tekur á ýmsum vöðvum líkamans.

Hæstv. menntmrh. Þessar fyrirspurnir eru fyrst og fremst fram komnar til að gera okkur grein fyrir því hversu mikil forvarnamál þessi mál eru. Ef hægt er að auka forvarnir í grunnskólum landsins með því að koma danskennslu, ræðumennsku og fundarsköpum inn í skólana enn frekar en nú er er ég viss um að einhverjum fjölda barna og unglinga yrði hjálpað til að halda sig frá vímuefnum. Það er vissulega þess virði, hæstv. menntmrh.