Danskennsla og ræðumennska í grunnskólum

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 19:11:49 (5183)

2004-03-10 19:11:49# 130. lþ. 81.14 fundur 712. mál: #A danskennsla og ræðumennska í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[19:11]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda, Jóni Kr. Óskarssyni, fyrir þessa skemmtilegu en um leið góðu fyrirspurn sem hefur vakið mann mjög til umhugsunar um það hvað við eigum að gera innan ramma aðalnámskrár. Við komum úr sama góða sveitarfélaginu, Hafnarfirði, og þar hef ég sem foreldri sjálf upplifað það hversu misjafnlega er að málunum staðið innan skólanna. Það er rétt að ítreka að hér er um sjálfstæða skóla að ræða og auðvitað er gaman þegar maður sér að skólarnir leggja mismunandi áherslur innan þess ramma sem þeim er búinn með aðalnámskránni. Sumir leggja áherslu á dans, aðrir leggja meiri áherslu á aðra hreyfingu eða annað sem líka getur rúmast innan aðalnámskrár.

Í Lækjarskóla í Hafnarfirði er til að mynda ekki boðið upp á dans meðan það er boðið upp á dans í Setbergsskóla og fleiri skólum bæjarins. Ég veit að það hefur verið þeim drengjum --- af því að hv. fyrirspyrjandi minntist á strákana --- til mikillar gleði sem eru í Setbergsskóla að taka þátt í dansinum, m.a. það að yfirvinna feimnina sem oft virðist hrjá drengi einhverra hluta vegna. Ég get reyndar ekki séð að það hrjái þá sem eru hér í þessum ágæta sal eða hafi nokkurn tíma hrjáð þá en einhverra hluta vegna virðast oft vera erfið og þung spor fyrir þá að dömunni til að bjóða henni upp í dans. Bara það að halda utan um stúlku er erfitt skref að yfirstíga. Þetta er mér sagt og tjáð af mætum piltum.

Í aðalnámskrá grunnskóla, listgreinum, frá 1999 er dans skilgreindur sem námssvið í grunnskóla. Skólar verða að tryggja að allir nemendur geti mætt lokamarkmiðum grunnskóla í dansi og líkamstjáningu. Samkvæmt aðalnámskránni má kenna greinina á námskeiðum og er lágmarkstímafjöldi slíkra námskeiða átta kennslustundir á vetri á yngsta stigi og miðstigi í grunnskóla en er valgrein á unglingastigi.

Dansinn má tengja öðrum námsgreinum grunnskóla á margvíslegan hátt. Kennsla í dansi og líkamstjáningu er samkvæmt aðalnámskrá í höndum almennra bekkjarkennara og sérgreinakennara, svo sem tónmenntakennara, íþróttakennara, danskennara eða viðurkenndra leiðbeinenda eftir aðstæðum. Í öllum tilfellum skal kennsla skipulögð í samræmi við lokamarkmið grunnskóla í greininni.

Grunnskólar skulu bjóða upp á danskennslu samkvæmt aðalnámskrá, grunnskólanemendum að kostnaðarlausu. Auk þess bjóða ýmsir skólar upp á dans sem hluta af tómstundastarfi skólanna og þá er heimilt að innheimta gjald vegna tómstundastarfsins eins og almennt tíðkast um starf af því tagi sem er fyrir utan lögbundið skyldunám.

Í aðalnámskrá grunnskóla í íslensku frá árinu 1999 er íslenskunámi skipt í nokkra þætti, þ.e. lestur, talað mál og framsögn, hlustun og áhorf, ritun, bókmenntir og málfræði. Lögð er jafnframt áhersla á að nemendur þjálfist í íslensku í öllum námsgreinum grunnskóla og þar skal einkum leggja áherslu á þjálfun í töluðu máli, lestri, lesskilningi og ritun. Í aðalnámskránni segir að nauðsynlegt sé að geta tjáð skoðanir sínar, hvort sem er við nám, í atvinnu, félagslífi eða einkalífi. Mikilvægt er að nemendur þjálfist á öllum skólastigum í að gera skipulega grein fyrir kunnáttu sinni og skoðunum. Góð framsögn og skýr framburður getur nýst í flestum námsgreinum.

Í aðalnámskránni eru síðan sett markmið fyrir hvert aldursstig í þessum meginþætti móðurmálsins. Í samfélagsfræði er einnig lögð áhersla á að nemendur komi þekkingu sinni og skilningi á framfæri með fjölbreytilegum hætti, t.d. í ræðu og riti.

Engin sérstök kennsla er skipulögð í grunnskólum í ræðumennsku, en ýmsir skólar bjóða engu að síður upp á slíka fræðslu, t.d. í tengslum við starfsemi nemendaráða og í tómstunda- og félagsstarfi skólanna. Til er námsefni fyrir grunnskóla fyrir kennslu í fundarsköpum og ræðumennsku. Það er til staðar.

Með hliðsjón af því sem ég hef rakið hérna sé ég ekki sérstaka þörf á því að ég beiti mér fyrir sérstakri kennslu í dansi og fundarsköpum eða ræðumennsku þar sem slík kennsla á að vera eðlilegur þáttur í skólastarfinu samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla eins og ég hef þegar rakið hér.