Danskennsla og ræðumennska í grunnskólum

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 19:16:19 (5184)

2004-03-10 19:16:19# 130. lþ. 81.14 fundur 712. mál: #A danskennsla og ræðumennska í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[19:16]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Kr. Óskarssyni fyrir að vekja máls á danskennslu í grunnskólum og kennslu í fundarsköpum og eins þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör við fyrirspurninni.

Það er nú einu sinni svo að grunnskólinn þarf ekki bara að búa nemendur undir að kunna að lesa, skrifa og reikna, heldur að þeir hafi einhverja leikni í því að takast á við lífið þegar þeir koma út úr grunnskóla, á þeim erfiða aldri sem menn eru þá á. Ég er alveg sannfærður um að meiri áhersla á danskennslu, jafnvel á kostnað leikfimikennslu, og kennsla í framsögn og því að tjá sig úr ræðustól mundi gagnast ákaflega mörgum mjög vel.

Í tilefni af því sem hæstv. ráðherra sagði áðan vil ég upplýsa að sá sem hér stendur var ekki frakkur í æsku og það hefði verið ákaflega gott ef það hefði verið skylda að ganga til stúlkna og bjóða upp í dans.