Danskennsla og ræðumennska í grunnskólum

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 19:17:30 (5185)

2004-03-10 19:17:30# 130. lþ. 81.14 fundur 712. mál: #A danskennsla og ræðumennska í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[19:17]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Jóni Kr. Óskarssyni fyrir að hreyfa við þessu skemmtilega og athyglisverða máli, sem er kannski miklu mikilvægara en mörgum virðist við fyrstu sýn, því hérna erum við einmitt að ræða kjarna málsins. Það sem fylgir einstaklingunum út í lífið og skiptir þá kannski mestu máli þegar skólagöngunni sleppir eru fögin sem margir kenna við lífsleikni hvers konar. Þegar páfagaukalærdómnum og staglinu sleppir skipta slíkar greinar oft mjög miklu máli, hvort sem um er að ræða, eins og hv. þm. nefndi, danskennslu, fundarsköp, skák, brids og ýmsa slíka kennslu, sem er mjög vert að taka í miklu meira mæli í grunnskólana á kostnað ýmissa annarra greina sem kannski, þegar allt kemur til alls, eru ekki eins mikilvægar og margur heldur. En þessar greinar skipta sköpum fyrir einstaklinginn þegar út í lífið er komið.