Samkeppnismál

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 10:35:03 (5190)

2004-03-11 10:35:03# 130. lþ. 82.91 fundur 398#B samkeppnismál# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:35]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af umræðum sem urðu á sl. ári um samskipti samkeppnisyfirvalda annars vegar og lögreglu og ákæruvalds hins vegar skipaði ég, að höfðu samráði við dómsmrh., starfshóp í því skyni að koma með tillögur að breytingum á samkeppnislögum ef nauðsynlegt þætti. Í skipunarbréfi starfshópsins var tekið fram að einkum skyldi taka til skoðunar verkaskiptingu rannsóknaraðila og beitingu viðurlaga. Teldi starfshópurinn að gefnu tilefni nauðsynlegt að gera breytingar á öðrum lögum í tengslum við samkeppnislögin var óskað eftir ábendingum þar að lútandi.

Starfshópurinn hefur skilað af sér og málið er núna til umfjöllunar á milli ráðuneyta sem að málinu koma, sem sagt viðskrn. og dómsmrn. Á meðan slík vinna fer fram er ekki eðlilegt að ég greini opinberlega frá stöðu mála. Ég geri mér að sjálfsögðu vonir um að niðurstaða náist sem leiði til þess að hér verði lagt fram á næstu dögum frv. til breytinga á samkeppnislögum.