Samkeppnismál

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 10:39:03 (5192)

2004-03-11 10:39:03# 130. lþ. 82.91 fundur 398#B samkeppnismál# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það er með ólíkindum að þetta mál skuli koma upp með þessum hætti á nýjan leik. Um það voru miklar deilur eins og menn muna, um rannsókn máls og hvenær lögreglan skyldi koma inn í það o.s.frv.

Maður veltir fyrir sér, virðulegi forseti, hvort þetta beri keim af því að nauðsynlegt sé að tefja eða að menn vilji af einhverjum ástæðum láta þetta mál dragast úr hömlu. Slíkar spurningar hljóta að vakna með okkur hv. þm., spurningar hvort innan stjórnarflokkanna séu deilur um málið á þeim forsendum að dómsmrh. vilji ekki að málið fái endanlega niðurstöðu.

Eins og menn muna voru miklar deilur milli Samkeppnisstofnunar og ríkislögreglustjóra um hvernig með málið skyldi farið. Mér finnst að nú séum við að upplifa endurtekningu á þeirri stöðu. Þetta er algerlega óþolandi réttaróvissa og mér finnst að hæstv. viðskrh. sé skyldug til að upplýsa okkur betur en hún gerði áðan.