Samkeppnismál

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 10:41:51 (5194)

2004-03-11 10:41:51# 130. lþ. 82.91 fundur 398#B samkeppnismál# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að vísu umhendis fyrir okkur þingmenn að ræða um frv. sem er til meðferðar í ríkisstjórn eða á milli ráðuneyta og við höfum ekki séð. Það þarf auðvitað ekki að vera óeðlilegt að mál þurfi skoðunar við milli ráðuneyta þegar þau varða verksvið fleiri en eins ráðuneytis.

Hitt er mjög alvarlegt, sá dráttur sem er orðinn á því að hreinar línur komist í verkaskiptingu þessara embætta. Það er alveg neðan við allar hellur að það skuli bætast svo ofan á allt sem fyrir er og valdið hefur óvissu og vandræðum í þessum efnum að verkaskipting eða mörk milli embætta eins og Samkeppnisstofnunar og lögreglu séu ekki sæmilega ljós.

Þetta bætist við það að mörg stórmál sem varða meint ólögmætt samráð eða misbeitingu á markaðsráðandi stöðu stórfyrirtækja hafa legið afvelta árum saman. Olíufélagarannsóknin er nú að verða býsna löng en hún er ekki neitt borið saman við rannsóknina á vátryggingafélögunum sem hefur staðið árum saman. Þetta er algerlega óþolandi ástand. Samkeppnisstofnun er bersýnilega ekki nógu öflug, ekki nógu vel að henni búið hvað fjármuni og mannafla snertir til að hún geti klárað öll þessi viðamiklu mál sem hún er með til meðferðar. Svo bætir náttúrlega gráu ofan á svart að hún þurfi að standa í skaki við ríkislögreglustjóra eða lögregluyfirvöld um mál af þessu tagi.

Það sem stendur upp á ríkisstjórnina er að koma þessum hlutum á hreint og þótt fyrr hefði verið. Við verðum að vona að það verði uppstytta í samskiptum þessara hæstv. ráðherra á allra næstu dögum þannig að málið komist hér inn, fyrir þingið og verði klárað fyrir vorið.