Samkeppnismál

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 10:46:17 (5196)

2004-03-11 10:46:17# 130. lþ. 82.91 fundur 398#B samkeppnismál# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég met mikils þann áhuga hv. þingmanna sem kemur hér fram á þessu máli en ég held því fram að meðan málið er í vinnslu á milli tveggja ráðuneyta geti ég ekki svarað nákvæmara en svona. Þess vegna er það svar. Málið er í vinnslu á milli viðskrn. og dómsmrn.

Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þingmenn hafa ekki séð frv. þannig að þegar því er haldið fram að það sé í líkingu við það frv. sem hv. þm. Samf. hafa lagt fram vita þau ekkert um það. Þau bara gefa sér það. (BH: ... í vor.) Sá fréttaflutningur sem hefur verið af málinu hefur ekki verið staðfestur þannig að hv. þm. vita ekkert um þetta frv. Vonandi rætist þó úr því. Ég vona svo sannarlega að hér muni birtast frv. áður en langt um líður.

Þegar verið er að tala um rannsókn á einhverju máli sem er hjá Samkeppnisstofnun, eins og á tryggingafélögunum, sem rannsókn ,,undir stjórn Framsfl.`` fara menn villur vegar. Þetta er sjálfstæð stofnun, Samkeppnisstofnun, og þó að svo vilji til að ráðherrann sem fer með málefni stofnunarinnar sé framsóknarmaður er ekki verið að rannsaka undir stjórn Framsfl. Ég vona að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því. Það er mjög ómálefnalegt að koma með slíkt innslag í umræðuna.

Málið er sem sagt í vinnslu og ég hlakka til að kynna það á hv. Alþingi þar sem áhuginn fyrir því er svona gífurlegur.