2004-03-11 10:56:32# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), MF
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[10:56]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hér er til umræðu er fjallað um launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana árin 2000--2002. Þar kemur fram að ótrúlegur munur er á launum lækna sem starfa hjá sex stofnunum á landsbyggðinni og þeim sem vinna á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi án eigin stofnanareksturs. Munar þar allt að 70%. Einnig er töluverður munur á launum hjúkrunarfræðinga annars vegar á þeim stöðum sem skýrslan fjallar um og hins vegar á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Öðru máli gegnir um laun sjúkraliða, þar er munurinn ekki eins mikill.

Kjaranefnd úrskurðaði um laun heilsugæslulækna haustið 2002 eftir harðar kjaradeilur. Þá var það álit hæstv. heilbrrh. að niðurstaða kjaranefndar þýddi að læknar mundu hækka í launum um 17--20%. Niðurstaðan varð allt önnur. Laun heilsugæslulækna úti á landi á þeim stofnunum sem úttekt Ríkisendurskoðunar nær til hækkuðu um 28--55% og ætla má að það sé ekki um einsdæmi að ræða hjá þessum stofnunum, heldur sé um sambærilegar hækkanir að ræða hjá öllum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Hækkunin hjá sjúkrahúslæknum var ívið minni.

Það kemur á óvart að laun lækna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem ekki var hægt að ráða til baka á sínum tíma vegna allt of hárra launa eru samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar í lægri kantinum.

Hluti skýringar á þessari launahækkun er að með úrskurði Kjaradóms átti að jafna kjör heilsugæslulækna og sjúkrahúslækna og að vinnu- og vaktaálag á læknum á landsbyggðinni er meira. Engu að síður er þessi launamunur óheyrilegur. Ef vinnu- og vaktaálag er jafnmikið og greiðslurnar benda til hljótum við að velta fyrir okkur hvort þar sé ekki of langt gengið með tilliti til þeirra öryggismarka sem eiga að gilda í heilbrigðisþjónustunni.

Síðan er það hin hliðin, launastefna ríkisins og hvernig staðið er að því að áætla launakostnað einstakra stofnana, ekki síst í heilbrigðisþjónustunni. Úrskurðir kjaranefndar eru ekki virtir í framlögum til stofnana né aðrir kjarasamningar heilbrigðisstofnana. Það er niðurstaða Ríkisendurskoðunar að ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála og fjmrn. hafi brugðist í túlkun samninga og í því að tryggja aðgang að upplýsingum um launamál sem nýtast stofnunum, bæði í samningsgerð og eftirliti með launaþróun og að fjárveitingar fylgi ekki þeim samningum sem gerðir eru. Það skortir samræmi milli launakerfis og fjármálakerfis. Það er mat Ríkisendurskoðunar að fjármálastjórn ríkisins á þessum sviðum sé orðin mjög veik.

Þetta er þungur dómur, að í launa-, kjara- og samningsmálum sé fjármálastjórnin í algjöru klúðri. Ég er ósammála því að það sé við heilbr.- og trmrn. að sakast. Hér er um að ræða ákvörðun fjmrn. Fjmrn. kemur að samningum, fjmrn. samþykkir þá samninga sem gerðir eru en áætlar ekki það fjármagn til stofnana heilbrigðiskerfisins sem samningarnir fela í sér. Stofnanir eru því reknar með halla ár eftir ár.

Sú þróun sem Ríkisendurskoðun sýndi í skýrslu sinni varðandi sex stofnanir úti á landi hefur ekki stöðvast, síður en svo. Laun stétta, sérstaklega lækna, hafa haldið áfram að hækka langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Ég get nefnt dæmi frá einni af þessum sex stofnunum. Þar hækkuðu laun lækna á sjúkrahússviði á milli áranna 2002 og 2003 að meðaltali um 26% ef miðað er við rauntölur þessara ára. Ef horft er til heilsugæslusviðs sömu stofnunar eykst launakostnaðurinn vegna heilsugæslu um 68% milli áranna 2002 og 2003. Það skýrist að hluta af því að greiðslur fyrir gjaldskrárverk sem áður voru hjá Tryggingastofnun eru nú hjá viðkomandi stofnun. Ef lögð er saman hækkun læknalauna á sjúkrahússviði og heilsugæslusviði nemur hækkunin milli áranna 2002 og 2003, ára sem skýrslan nær ekki til, um 47% og þar er ekki talin með vinna á eigin stofum.

Þessi umrædda stofnun á í verulegum rekstrarerfiðleikum. 78% af rekstri eru launagreiðslur og hallarekstur hefur verið undanfarin ár, m.a. vegna þessa mikla launakostnaðar. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hann bregðast við til að sporna gegn þessari þróun í launamálum stofnana innan heilbrigðiskerfisins? Hefur hann rætt við forsvarsmenn þeirra stofnana sem skoðaðar voru samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar? Hafa átt sér stað viðræður við þá lækna sem þarna eiga hlut að máli og telur ráðherra að þessi þróun launahlutfalls í rekstri viðkomandi stofnana sé eðlileg? Hver var vitneskja fjmrn. um stöðu og þróun mála?

Virðulegi forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir fullkomlega óeðlilega launaþróun hjá heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Ef ekki verður spornað við þessari þróun er útilokað að rekstur stofnananna geti gengið til lengri tíma litið. Spurning mín er: Hver er stefna ráðherra og hvernig hyggst hann hrinda henni í framkvæmd án þess að skerða þjónustu heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni?