2004-03-11 11:06:50# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka þessa skýrslu ríkisendurskoðanda og skýrslu hæstv. ráðherra en ástæða skýrslubeiðni, eins og kom fram, er úttekt ríkisendurskoðanda á launakostnaði nokkurra heilbrigðisstofnana sem hafa átt í miklum rekstrarvanda og það var ljóst að launakostnaður á þeim stofnunum hafði farið fram úr áætlunum. Því var beðið um skýrsluna. Ég tel að skýrslan sé í raun fyrsta skref til þess að skoða aðstæður þessara stofnana og annarra, sérstaklega í dreifbýlinu, til að standa að samningum við heilbrigðisstarfsmenn sína.

Niðurstaða úttektarinnar sem er frá 2000--2002 sýnir það í raun að bæði heilbrigðisstarfsmenn og aðrir starfsmenn umræddra heilbrigðisstofnana hafa fengið launakjör umfram strípaða samninga og þá er verið að bera saman við samninga á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi. Tölurnar sýna meðallaun. Það er reynt að gefa sem raunverulegasta mynd af launum fastráðinna starfsmanna og þeir starfsmenn teknir út sem vinna tímabundið því að tímabundnar ráðningar hækka enn frekar launakostnaðinn. Eftir sem áður lendir sá launakostnaður á þessum stofnunum. Ekki eru reiknuð launatengd gjöld í greiðsluna þannig að meðallaunin eiga að vera nokkuð ljós, og eru hærri á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni en á LSH.

Herra forseti. Gert er ráð fyrir dreifstýrðum samningum, einstaklingsbundnum stofnanasamningum, eins og kerfið er í dag. Ég tel að það sé núna að koma í ljós sem hefði átt að vera fyrirsjáanlegt að þetta fyrirkomulag mundi leiða til launaskriðs, sérstaklega hjá stofnunum úti um hinar dreifðu byggðir, þ.e. minni stofnunum þar sem þær eiga mjög erfitt með að standast launakröfur starfsmanna, sérstaklega þegar fagaðilar eiga í hlut. Ég tel því mikilvægt að þetta fyrirkomulag á samningsgerð sé endurskoðað mjög gaumgæfilega með það í huga að líta til stöðu þessara stofnana, við að semja við mjög sterka heilbrigðisstarfsmenn.

Ég vil líka taka fram að mér finnst mjög erfitt að bera alveg einhliða saman brúttómeðaltekjur starfsmanna heilbrigðisstofnana úti á landi og Landspítalans þar sem aðstæður er svo gjörólíkar, m.a. stjórnunarlega. Það þarf ekki að horfa lengi á það að stjórn stofnunarinnar Landspítala -- háskólasjúkrahúss er sterkasta stjórn heilbrigðisstofnunar sem við höfum í dag. Stjórnun er auðveldari. Það gerir starfsmannafjöldinn á Landspítalanum, m.a. varðandi afleysingar, vaktaálag og annað slíkt sem er hægt að hagræða á fjölmennum vinnustað. Svo er landfræðilegi þátturinn. Það verður að líta til þess að ekki gengur alltaf vel að fá fagfólk til þess að vinna úti um land, flytja sig um set. Það kostar og það á að reikna með staðaruppbótum. Þegar við lítum auk þess á laun lækna má segja að eingöngu þeir sem starfa á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri hafi möguleika á að vera með einkareknar stofur utan starfa sinna á heilbrigðisstofnuninni. Þau laun koma ekki inn í þessi meðallaun. Við vitum því ekki hvort launabilið á milli lækna úti á landsbyggðinni og lækna sem vinna við Landspítala -- háskólasjúkrahús væri í raun jafnmikið og kemur fram í þessari töflu ef laun þeirra á einkastofunum kæmu inn í samanburðinn einnig.

Ég vil bara ítreka það að heilbrigðisstofnunum úti á landi er gert að fara í stofnanasamninga og hafa tekjuafgang til þess. Þetta eru stofnanir sem eru yfirleitt reknar með miklum sparnaði á núlli og ef á að semja um launahækkanir verður það ekki gert nema með niðurskurði eða að koma út í mínus eins og verið hefur.