2004-03-11 11:16:20# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:16]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Stærsti fjársjóður heilbrigðiskerfisins er starfsmenn kerfisins. Skýrslan sem hér er til umræðu fjallar um laun og launaþróun hjá hluta þess mannauðs á nokkrum heilbrigðisstofnunum. Skýrslan dregur m.a. fram að þegar farið er í að hagræða er ekki hægt að taka af öðru en launaliðnum svo nokkru nemi. Skýrslan dregur líka ótvírætt fram að meginástæður aðgerða sem kenndar eru við hagræðingu og sparnað eru þær að launahækkanir hluta heilbrigðisstarfsmanna hafa verið langt umfram mat fjmrn. við kostnaðaráætlanir vegna kjarasamninga. Skýrslan sýnir líka fram á að þörfin fyrir hagræðingaraðgerðir sprettur af því að framlög á fjárlögum byggja á þessu mati fjmrn.

Meginniðurstaðan, herra forseti, af þessari skýrslu, fyrir þá sem vilja horfa fram á veginn, er þörf fyrir samhæfða stjórnun og greiðan aðgang að upplýsingum. Skýrslan leggur áherslu á þörfina fyrir miðlægan stuðning fagráðuneytis, aðstoð við túlkun kjarasamninga og aðgang að upplýsingum um launamál sem nýtist bæði við samningsgerð og eftirlit með launaþróun. Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við það sem segir í samantektinni í haustskýrslu Hagfræðistofnunar um fjármögnun á rekstri heilbrigðisþjónustunnar. Þar er bent á hversu margar stofnanir koma að rekstri og stjórnun heilbrigðisþjónustu og bent á þörfina fyrir að tryggja heildarsýn og samhæfða stjórn og rekstur á einum stað þar sem upplýsingum sé safnað, úr þeim unnið og með því tryggð yfirsýn yfir rekstur og gang kerfisins. Í þeirri skýrslu er líka lögð áhersla á að ný tækni, nýjar aðferðir og úrræði í læknavísindum fari í gegnum strangt ferli með samanburði á kostnaði og ábata og eftirlit sé haft með magntengdum greiðslum fyrir læknisverk og aðra heilbrigðisþjónustu sem ríkið kaupir af öðrum.

Niðurstaðan er að mínu mati, herra forseti, að ein forsenda aukinnar skilvirkni í heilbrigðisþjónustunni er að gera stjórnvöldum og þá heilbr.- og trmrn. kleift að sinna eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu. Því fleiri verk og meiri þjónustu sem ríkið felur öðrum, því brýnna er það.