2004-03-11 11:18:38# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), HHj
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:18]

Helgi Hjörvar:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að hafa kallað eftir þeirri ágætu skýrslu sem hér liggur fyrir. Um leið vil ég segja að það er að vissu leyti óheppilegt að hæstv. fjmrh. sé ekki viðstaddur umræðuna og taki ekki þátt í henni. Eins og hér hefur komið fram varðar málið fjmrn. jafnmikið ef ekki meira en heilbrrn. Það þekkjum við úr störfunum í fjárln. Fyrir fjárln. hafa komið fulltrúar stofnana sem eins er ástatt fyrir og heilbrigðisstofnunum, að launakostnaður þeirra hefur verið vanáætlaður og samningar sem fjmrn. hefur gert hafa ekki verið bættir þeim. Það veldur viðkomandi stofnunum verulegum erfiðleikum. Þeir erfiðleikar eru ekki bundnir við stofnanir heilbrrn. heldur hafa þeir komið upp í fjölmörgum ríkisstofnunum. Það er sérstakt áhyggjuefni því að hér hefur launakostnaðarþróunin farið úr böndunum, sérstaklega við innleiðingu á því nýja kerfi sem nú er stuðst við.

Ég hlustaði því af athygli á hæstv. heilbrrh. og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson en fannst tiltölulega lítið um viðbrögð, stefnu eða lausnir á þessu mikilvæga viðfangsefni þó að hæstv. heilbrrh. reyndi með sínum hætti að vísa þessu á fjmrn. með því að tala um að kannski væri slæmri samningsgerð um að kenna.

Ég tel mikilvægt að ráðherrann svari í síðari ræðu sinni tveimur atriðum. Er það rétt hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að þessi þróun hafi haldið áfram og að veruleg aukning á launakostnaði sé líka frá árinu 2002--2003 og nú til ársins 2004? Ef svo er þá verða menn að hafa í huga að nýgerðir eru kjarasamningar á hinum almenna markaði upp á 15% hækkanir á fjögurra ára tímabili. Það gengur ekki að ríkisvaldið hagi svo launa- og lífeyrismálum hjá sér að það ógni eða verði skemmt epli í þeirri tunnu sem stöðugleikinn á hinum almenna vinnumarkaði er. Hæstv. ráðherra verður að svara því til hvaða aðgerða hann hyggst grípa til þess að sporna gegn slíkri þróun.