2004-03-11 11:23:33# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er gagnlegt að fá þessa skýrslu og þakkarvert að hún skuli tekin til umræðu í því formi sem gert er, þ.e. að hæstv. heilbrrh. mæli fyrir henni. Ég held að við ættum að temja okkur að hafa þennan hátt á oftar þegar eftirlitsstofnanir eða aðrir aðilar hafa skilað mikilsverðum skýrslum, að þær fái formlega meðhöndlun og það sé gert með þessum hætti, að ráðherra viðkomandi málaflokks hafi forgöngu um það og mæli fyrir þeim.

Skýrslan leiðir í ljós verulega hækkun launakostnaðar á viðkomandi stofnunum sem skýrist af, eins og hér hefur komið fram, umsömdum kauphækkunum, launaskriði og auknu umfangi starfseminnar. Mér er þó ekki síður í huga sá gríðarlegi launamunur sem þessi skýrsla leiðir í ljós milli starfsstétta og reyndar innbyrðis milli stofnana líka. Í sumum tilvikum sjáum við mjög há laun, sérstaklega hjá læknum. En í því sambandi verðum við kannski sérstaklega að hafa tvennt í huga til að sýna fulla sanngirni.

Annars vegar er það smæð þessara stofnana, t.d. þær aðstæður að nokkrir læknar á litlu sjúkrahúsi eru nánast stöðugt á vakt eða bakvakt. Starfsemin ósköp einfaldlega stendur og fellur með því að það starfsfólk sem til staðar er sætti sig við slíkar vinnuaðstæður. Það er ekki endilega að menn séu að þessu launanna vegna eða að þeir vilji hafa þetta svona, að vera stanslaust á vakt. Aðstæðurnar gera það ósköp einfaldlega að verkum að það er óhjákvæmilegt, eigi að vera unnt að halda þjónustunni úti.

Hitt sem við verðum að horfast í augu við er staðsetningin. Það hefur löngu verið viðurkennt að í vissum tilvikum verður einfaldlega að greiða hærri laun og/eða formlegar staðaruppbætur eigi að takast að manna ákveðnar stofnanir. Eða muna menn ekki ástandið eins og það var á köflum fyrir nokkrum árum síðan er embætti heilsugæslulækna og jafnvel lækna á spítölum á landsbyggðinni voru í stórum stíl ómannaðar? Ég held að vænlegasti kosturinn til að hafa sæmilega hreinar og skýrar leikreglur í þessu séu góð föst umsamin laun og formlegar staðaruppbætur sem taki mið af aðstæðum á hverjum stað.