2004-03-11 11:26:00# 130. lþ. 82.1 fundur 397#B launaþróun starfsmanna nokkurra heilbrigðisstofnana 2000--2002, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra# (munnl. skýrsla), GAK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[11:26]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða er færð inn í þingsali og þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að fara yfir umrædda skýrslu.

Ég vil hefja mál mitt, með leyfi forseta, á að vitna í nokkrar setningar úr skýrslunni á bls. 41, en þar segir m.a.:

,,Með hinu nýja launakerfi átti að færa vald til launaákvarðana frá miðlægum aðila til einstakra stofnana ... Í þessu launakerfi mætti því búast við að einstakar stofnanir greiddu mismunandi laun fyrir sambærileg störf ... Stofnanasamningar eru ekki staðlaðir og eru því mismunandi milli stofnana. Algengt er í hinu nýja launakerfi að meta með reglulegum hætti störf og frammistöðu starfsmanna á grundvelli stofnanasamnings. Þess vegna eru laun mun oftar tekin til endurskoðunar í hinu nýja launakerfi en áður var þegar lítið gerðist í launamálum milli aðalkjarasamninga.``

Í niðurlagi segir síðan, með leyfi forseta:

,,Í raun má segja að ákvarðanir um laun séu því oftar upp á teningnum nú en áður var. Þetta skapar þrýsting til launahækkana.`` --- Skyldi nú engum koma á óvart.

Mönnum hlýtur að hafa verið ljóst að þegar stofnanasamningarnir voru settir inn mundi það skapa þrýsting til launahækkana og það hlyti að búa til samanburð milli manna og samanburð milli stofnana. Það hlýtur að vera erfiðara að mæta kröfunni um að launahækkanir skuli eingöngu koma til með hagræðingu á minni stofnunum en hinum stærri. Þetta liggur í hlutarins eðli og ætti ekki að koma mönnum á óvart en sýnir að þetta fyrirkomulag mun ekki ganga upp ef við ætlum að halda utan um reksturinn.