Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:02:09 (5213)

2004-03-11 12:02:09# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef verið settur í ýmis hlutverk um dagana, en eitt af þeim óvenjulegri er að útskýra utanríkismálastefnu Framsfl. enda var galsast hér með það að kannski væri það svona þrír og hálfur flokkur sem hefði þá afstöðu um þessar mundir að ekki væri hagstætt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Út af fyrir sig skiptir það ekki máli. Ég tók það bara sem dæmi að þrír flokkar, þrír þingflokkar, hafa þá afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu en það breytir engu um að þeir geta stutt eða ekki stutt á víxl ýmis mál sem tengjast hinu sama Evrópusambandi gegnum þann grundvöll samskipta okkar við það sem EES-samningurinn er. Í þeim skilningi finnst mér því niðurstaða okkar í málinu ekki á nokkurn hátt eiga að þurfa að vekja einhverja undrun, enda alvenjuleg. Við höfum stutt ýmsar gerðir sem koma hingað í gegnum EES-samninginn til staðfestingar ef við sjáum ekki efnislega ástæðu til að leggjast gegn þeim.

Það er ekkert nýtt heldur að sá sem hér talar segi kost og löst á Evrópusambandinu. Hv. þm. má ekki falla í þá gryfju að búa til einhverja goðsögn um að ég eða flokksmenn mínir höfum talið allt illt sem þaðan kæmi og hefðum svo skyndilega breytt um stefnu. Hv. þm. orðaði það einhvern veginn þannig að ég hefði séð allt rautt sem þaðan kæmi. Ég gæti alveg eins hafa séð allt grænt eða rauðgrænt. Staðreyndin er sú að ég hef í þessum efnum eins og öðrum yfirleitt reynt að segja kost og löst á hlutunum. Ég tel mig Evrópusinna en ekki aðildarsinna og varðandi þetta með jafnaðarstefnuna bið ég hv. þm. að vera nákvæmari, fara nákvæmlega með, því að það sem ég sagði var og er rétt að ég er róttækur jafnaðarmaður í skilningnum að jafnaðarmennska eða jafnaðarmaður sé þýðing á orðinu sósíalisti. Ég lít á mig sem róttækan sósíalista, róttækan vinstri mann og umhverfisverndarsinna. Það er mín definisjón.