Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:06:30 (5215)

2004-03-11 12:06:30# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekkert frá því að það hafi verið rétt lýsing á einhverjum tíma í hinum gamla ótrúlega hægri sinnaða Alþfl. Þá hafi hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og dæmigerðir Hafnarfjarðarkratar tvímælalaust réttilega mátt teljast til róttækari eða vinstri arms þess flokks. Ég held að ég hafi haft það á tilfinningunni á sínum tíma og það skýrir sjálfsagt þessi ummæli mín, enda verðum við að muna eftir því að þetta var hinn gamli Alþfl. sem að margra mati var einn hægri sinnaðasti alþýðu-sósíaldemókrataflokkur í allri Evrópu. Ég held að það sé viðurkennt að hann var í hægri kanti þeirrar hreyfingar, jafnaðarmannaflokkahreyfingarinnar, a.m.k. ef maður bar hann saman við aðra norræna krataflokka, var hann bæði minni og miklu hægri sinnaðri en þeir.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson skýrir að sjálfsögðu sjálfan sig í pólitík og ég tek mark á ummælum hans. Ég vitnaði t.d. í viðtal hans við Dagblaðið haustið 2002 held ég að það hafi verið þar sem hv. þm. fór mikinn og var ánægður með afrek sín í sambandi við Samf. og taldi sér það sérstaklega til tekna að undir forustu sinni væri Samf. að þróast í klassískan evrópskan jafnaðarmannaflokk sem væri meiri miðjuflokkur en vinstri flokkar. Orðrétt tók hv. þm. Össur Skarphéðinsson svona til orða. Þetta er það sem ég kalla miðlæga eða miðsækna hægri krata, jafnaðarmenn eða hvað sem við viljum kalla það.

Varðandi EES-samninginn þarf ekki að vera að þvæla um hann mikið meira. Það liggur fyrir, ég sagði það í framsöguræðu minni við 2. umr. og það stendur í tillögu okkar um alþjóðastefnu, að EES-samningurinn er auðvitað gallaður en hann er sá grundvöllur þessara samskipta sem við byggjum núna á. Umræður um hann á sínum tíma eru Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði óviðkomandi. Hún var ekki stofnuð fyrr en mörgum árum eftir að þær umræður fóru fram. Þær umræður eru því þeim stjórnmálaflokki sem slíkum að öllu leyti óviðkomandi.