Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:08:46 (5216)

2004-03-11 12:08:46# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Þær detta inn hinar stóru yfirlýsingar. Rétt áðan taldi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, að flokkurinn hefði enga fortíð og ekki hann heldur. Það er merkilegt að upplifa sjálfan sig í pólitík með þeim hætti. Ég hefði satt að segja ekki ímyndað mér að þessi litla upprifjun mín á sögunni, sem er ekki saga Napóleons, ekki saga sjálfstæðisbaráttunnar þegar hvorki ég né hv. þm. vorum fæddir eða hvergi nærri því að vera fæddir. Ég var einfaldlega að fara 12 ár aftur í tímann þegar hv. þm. var virkur í pólitík og lét til sín taka í þessum ræðustóli og talaði þannig um Evrópska efnahagssvæðið og Evrópusambandið að þetta væri sennilega svínslegasta atlaga að íslenska sjálfstæðinu eða íslenska lýðveldinu, hvorki meira né minna. (SJS: Hvenær notaði ég það orð?) Ég bið forláts, frú forseti. Ég er ekki að fara orðrétt með. Efnislega var þetta hins vegar innihald ræðna hans og ég bið hann að fletta því upp.

Mig óraði ekki fyrir því að þessi sakleysislega upprifjun mín á þeim veruleika fyrir 12 árum, sem er auðvitað samtíminn, og 12 árum síðar þegar við erum satt að segja að staðfesta skírnina, konfirmasjón, á EES-samningnum, stækkuðu Evrópusambandi, skuli hv. þm. hafa gersamlega kúvent og flokkur hans og greitt atkvæði með og fagnað í hvívetna. Ég er ekki einn um það. Ég hitti ágætan flokksfélaga hv. þm. í Hafnarfirðinum í gær og spurði hann út í þetta og hann kom algerlega af fjöllum þannig að ég er ekki einn um að undrast þetta. En það kann vel að vera að sá flokksmaður hv. þm. sé úr hinum armi flokksins sem maður hefur lesið um í blöðunum, óánægjuarminum og skilji þess vegna ekkert í þessum nýja armi, þingarminum.