Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:13:09 (5218)

2004-03-11 12:13:09# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Þær eru margar undarlegar slaufurnar. Það liggur í augum uppi og það veit hv. þm. að ef þetta samkomulag hefði ekki verið gert mundi EES-samningurinn heyra sögunni til mjög fljótlega. Það gefur auga leið. Hér er auðvitað verið að staðfesta hann að breyttu breytanda. Það þarf ekkert að velkjast í vafa um það.

Ég skil satt að segja ekki þessa varnartilburði hv. þm. og ég biðst forláts hafi ég gengið of langt í því að vera að gefa honum og flokki hans einkunnir í þessum efnum. Það var ekki meginmarkmið mitt. Sagan mun skrifa það að lyktum og fólk veit hvernig þingmenn og stjórnmálamenn eru í þessum efnum, hvort þeir séu þeirrar gerðar að þeir segi það sama í dag og í gær eða hvort þeir séu hinnar gerðarinnar og segi eitt í dag og annað á morgun. Þannig er það bara og þjóðin verður að dæma um það.

Minn tilgangur var fyrst og síðast sá að lyktum umræðunnar, að fagna því af einlægni að hv. þm. og flokkur hans væru komnir í Evrópuliðið, eru nú loks farnir að styðja EES-samninginn og stækkun Evrópusambandsins. Ég hafði í einfeldni minni túlkað og skynjað það þannig að hv. þm. og flokkur hans væru á annarri braut og fagnaði því sérstaklega að ég hafði haft rangt fyrir mér í þessum efnum og þeir væru komnir heim. Ég ítreka því: Veri hv. þm. velkominn í þennan góða hóp og ég hlakka til að starfa með honum að Evrópumálum í næstu framtíð. Gleði er mér því efst í huga á þessum drottins degi.