Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:15:01 (5219)

2004-03-11 12:15:01# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. hefur ekkert til að biðjast afsökunar á. Mér er það fagnaðarefni ef ég hef getað glatt hv. þm. og megi liggja vel á honum sem oftast og lengst. Hitt er verra ef sú gleði byggist á misskilningi. Það er út af fyrir sig aldrei til bóta að menn gangi um þannig. Það er því alveg með herkjum að ég fái mig í að valda hv. þm. vonbrigðum með því að endurtaka það sem ég hef áður sagt. Afstaða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs til þessa máls boðar enga stefnubreytingu. Hún er rökrétt í ljósi þeirrar grundvallarafstöðu sem við höfum í þessum efnum og einnig í ljósi þess að við temjum okkur að taka efnislega, skýra og málefnalega afstöðu til hlutanna. Ég held að hv. þm. þurfi ekki að vera með neinar vangaveltur um annað. Þrátt fyrir allt leyfi ég mér að segja að ég tel að við höfum fengið það orð á okkur, ekki síður en aðrir stjórnmálaflokkar svo að notað sé kurteislegt orðalag, að hafa sæmilega hreina og klára afstöðu til mála.

Það er því miður ekki þannig að hv. þm. geti þar með tekið mig með í eitthvað sem hann kallar Evrópuliðið. Ég veit ekki alveg hvað það felur í sér. Mér finnst að menn eigi að reyna að nota skýr hugtök og vanda sig í þeim efnum. Hið endalausa tal um að sumir séu Evrópusinnar og aðrir ekki finnst mér ekki viðeigandi. Við erum öll góðir Evrópubúar og viljum teljast til þess hóps þjóðanna, þeirrar fjölskyldu, þó að sum okkar telji ekki að við eigum að vera aðilar að Evrópusambandinu. Mér finnst það niðrandi tal um stóran hluta almennings, ekki bara á Íslandi, í Noregi, Sviss og Liechtenstein heldur líka innan Evrópusambandsins. Menn geta verið góðir Evrópubúar þó að þeir séu gagnrýnir á Evrópusamrunann og styðji ekki allt sem kemur frá Brussel. Svíar eru ekkert minni Evrópumenn þó að þeir hafi hafnað evrunni með afgerandi meiri hluta í kosningum.

Við eigum auðvitað að ræða þetta af yfirvegun og skynsemi og sýna skoðunum hvers annars virðingu.