Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:17:26 (5220)

2004-03-11 12:17:26# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, EKG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það lá við að ég þyrfti að berja í mig kjark til að fara í þessa umræðu núna. Umræðan sem af er þessum morgni hefur þróast þannig að það eru orðaskipti í hinni miklu heimshreyfingu sósíalista sem hér hefur verið fagurlega lýst, ýmist á íslensku, ensku eða frönsku. Ég verð satt að segja að játa það að mér finnst ég eiga frekar lítið erindi inn í þann hóp. Ég hef a.m.k. ekki verið boðinn þangað velkominn. Ég hef hins vegar tekið eftir því að formaður Samf. hefur verið að bjóða menn velkomna í þá miklu hreyfingu á báða bóga í allan morgun og það er eins og maður sé skilinn eftir út undan.

Maður upplifir sig þegar maður kemur inn í þennan hóp, þar sem allt er farið í bál og brand í þessari elskulegu fjölskyldu, líkt og maður sé kominn inn í fjölskylduboð og veit ekki sitt óvænna þegar fjölskyldumeðlimirnir eru allt í einu komnir í hár saman. (ÖS: Ertu ekki að tala um ríkisstjórnina?) Þetta er eins og var í gömlu ríkisstjórninni þar sem Alþfl. var, að skyndilega var allt komið í bál og brand. Engu að síður ætla ég að vona að þó að ég leyfi mér að trufla þetta fallega teboð verði mér fyrirgefið.

Ég tek undir það að að mörgu leyti hefur komið á óvart hversu litla athygli umræðan um stækkun EES hefur fengið. Ég hafði satt að segja vænst þess, og nefndi það í ræðu minni á þriðjudaginn, að þetta yrði eitt af stóru málunum á þinginu. Ég hafði gert mér í hugarlund að því fylgdu ekki átök á borð við þau sem urðu um málið fyrir tólf árum síðan á þinginu en ég bjóst hins vegar við því að menn tækjust dálítið á og umræðan yrði með öðrum formerkjum. Einkanlega bjóst ég við því að umræðan mundi enduróma í þjóðfélaginu. Ég gerði ráð fyrir að þetta mundi vekja athygli fjölmiðla, ekki síst vegna þess að í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var í upphafi reynt að magna upp þessa umræðu. Menn höfðu tilhneigingu til að tala um þetta sem eitt af stóru málunum sem við þyrftum að kjósa um í kosningunum.

Síðan kom auðvitað allt annað á daginn. Við tökum eftir því að þessi umræða fer meira og minna fram hávaðalaust. Úti í þjóðfélaginu hygg ég að fæstir viti að við séum um það bil að lögfesta stækkun EES-samningsins, sem er heilmikið mál. Þetta er stærðarinnar mál. Við erum að lögfesta aðgang okkar að enn þá stærri markaði en áður hefur verið. Við verðum jafnframt þátttakendur í ferli sem hefur tekið mörg ár, þar sem þjóðir Austur-Evrópu eru að verða hluti af Evrópusambandinu. Við tengjumst þeim í markaðslegu tilliti og á ýmsa aðra vegu. Hér er einnig tekist á við spurninguna um hvernig við eigum að taka á móti því fólki sem hingað vill koma af þessu stóra efnahagssvæði. 400 milljónir manna eða rúmlega það eru skyndilega orðnar hluti af atvinnusvæði Íslands, hvorki meira né minna. Þetta eru heilmikil tíðindi sem við höfum ekki fyrr getað rætt eins og við gerum núna.

Ég hygg að meginástæðan fyrir því að umræðan um þessi mál er þrátt fyrir allt svo efnisleg sem raun ber vitni, bæði á þessum morgni og eins á þriðjudaginn var, sé sú reynsla sem við höfum haft af hinu Evrópska efnahagssvæði á síðustu tíu árum. Einmitt á þessu ári eru tíu ár liðin síðan samningurinn gekk í gildi. Samningurinn var undirritaður á vordögum 1992, við lögfestum hann 1993 en síðan varð hann fullgildur og að veruleika árið 1994. Nú er því tíu ára afmælisár þessa samnings. Þegar við skoðum málið kemur á daginn að þrátt fyrir að menn reyni að halda til haga sérstöðu sinni í málinu á báða bóga þá er engu að síður miklu meiri sátt um samninginn. Það eru ekki þessi miklu átök sem áður voru.

Skoðum málið í þessu ljósi, í ljósi sögunnar, í ljósi þess að menn greindi á um hvernig við ættum að skipa okkur í sveit innan Evrópu, hvort við ættum að ganga inn í Evrópusambandið eða ekki o.s.frv. Niðurstaðan var sú að árið 1994 urðum við aðilar að hina Evrópska efnahagssvæði. Tíu árum seinna tökum við umræðuna um að stækka það samningssvæði. Þá sjáum við að umræðan er ekki mjög stríð. Við erum miklu nær einhverri sátt, niðurstöðu sem menn una við. Menn eru henni kannski ekki sammála en menn una við hana. Það hygg ég að bendi til að niðurstaðan hafi verið mjög mikilvægt innlegg í tilraun okkar til að búa til þjóðfélagslega sátt um þennan stóra þátt í utanríkismálum okkar.

Ég nefndi það á þriðjudaginn var að því hefði oft verið haldið fram að EES-samningurinn væri að renna sitt skeið og þetta væri úreltur samningur. Það fer í taugarnar á sumum þegar þeir fara á fundi í Brussel og hitta einhverja bírókrata þar sem þekkja ekki almennilega EES-samninginn eða þykjast ekki þekkja hann, nenna ekki að tala um hann og slíkt. Maður heyrir alls konar lífsreynslusögur um þetta.

Sannleikurinn er hins vegar sá að þessi samningur hefur gengið í gegnum gríðarlega mikla prófraun. Það að EES-samningurinn er orðinn svona stór og að það skuli vera að takast að stækka samninginn segir okkur að hann á fullt erindi. Samningurinn færir okkur aðgang að þessum stóra markaði, samningur sem við höfum breytt svo mikið með því að taka inn allar þessar þjóðir. Það er auðvitað til marks um að þetta er lifandi samningur og kröftugur samningur. Ég hygg að færa megi fyrir því rök að EES-samningurinn sé einmitt sterkari núna en nokkru sinni fyrr, einfaldlega vegna þess að það er búið að láta reyna á hann í samningum við Evrópusambandið auk þess sem hann nær til miklu fleiri þjóða.

Þetta er að mínu mati stærsta niðurstaðan í þessu máli. Við getum búið við þennan samning eins og hann er um ókomin ár. Við þurfum því ekkert að fara á límingunum þó að menn telji ekki fært að uppfæra hann með einhverjum hætti. Aðalatriðið er að þessi samningur dugar okkur ágætlega og um hann er pólitísk sátt í þjóðfélaginu og engar ógnir sem af honum stafa.

Ég held að helsta ógnin gagnvart Evrópusamstarfinu sé Evrópusambandið sjálft. Ef eitthvað verður til þess að sundra Evrópusamstarfinu þá eru það hinar undarlegu tilhneigingar sem við sjáum innan Evrópusambandsins. Evrópusambandið hefur að mörgu leyti risið upp gegn eigin prinsippum. Ég fór yfir það nokkuð rækilega á þriðjudaginn var hvernig Evrópusambandið ræðst sífellt að eigin prinsippum.

Tvö dæmi skal ég nefna. Fyrst skal nefna að þegar við reyndum að ná endanlegu samkomulagi varðandi stækkun EES var það þannig í pottinn búið að bírókratarnir innan Evrópusambandsins, reyndar pólitíkusarnir líka, reyndu að koma í veg fyrir að við gætum haldið áfram þeirri fríverslun með síld sem við höfðum árum saman haft með höndum og skiptir talsverðu máli fyrir okkur en gríðarlega miklu máli fyrir eina af þessum stóru, fátæku þjóðum sem eru að koma inn í Evrópusambandið, Pólland. Maður hefði getað ímyndað sér að Evrópusambandið, sem heldur á lofti prinsippum um frjálsa verslun, hefði fúslega viljað taka yfir þennan fríverslunarsamning okkar við Pólland, gera hann að hluta af samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og leggja þannig af mörkum til aukinnar fríverslunar í Evrópu.

Þá gerist það allt í einu að Evrópusambandið, sem þykist í orði kveðnu sérstaklega áhugasamt um frjálsa verslun, kýs allt í einu að leggjast þvert í þessu máli. Að hvaða hagsmunum var það að ráðast? Það réðst að hagsmunum einnar af stærstu þjóðunum sem var að ganga inn í Evrópusambandið, fátækrar þjóðar, Pólverja. Þar fyrir utan var þetta sérstakt hagsmunamál fátæks hluta þessa fátæka ríkis sem þarna var sótt að af hálfu Evrópusambandsins.

Við hefðum auðvitað bjargað okkur, rík þjóðin. En sú fátæka þjóð sem var í þessari nauð mátti búa við árásir Evrópusambandsins, í raun voru það árásir gegn eigin prinsippum. Hefði það ekki verið fyrir hörku okkar manna og Pólverja þá hefði Evrópusambandið náð sínu fram. Það hefði verið undarlegt.

Hæstv. utanrrh. tók annað dæmi um hvernig skepnan er að rísa gegn skapara sínum í þessum efnum, hvernig Evrópusambandið ræðst gegn eigin prinsippum. Núna er það með alls konar tiktúrum að reyna að koma í veg fyrir að Íslendingar og aðrar þjóðir utan Evrópusambandsins fái að flytja inn eldislax til Evrópusambandsins, búa til tæknileg vandamál til að torvelda þetta. Þá segja menn: Ja, þetta eru rök fyrir því að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Þvert á móti, virðulegi forseti, eru þetta auðvitað rök gegn því að ganga inn í Evrópusambandið. Hvernig getum við samþykkt það að verða hluti af sambandi sem vinnur með þessum hætti, að ráðast gegn hagsmunum sinna eigin ríkja, gegn hagsmunum sem það þykist sjálft bera fyrir brjósti. Við viljum auðvitað ekki verða hluti af svoleiðis spilverki.

Virðulegi forseti. Mitt erindi var nú fyrst og fremst að vekja athygli á því að hér er að ljúka gríðarlega stóru máli sem fyrir fram hefði mátt ætla að væri eitt af stærstu málum vetrarins. Hins vegar kemur á daginn að það er miklu meiri sátt um hið Evrópska efnahagssvæði en við hefðum getað gert okkur í hugarlund. Það er ljóst að náðst hefur meiri sátt um þessa nálgun varðandi Evrópuumræðuna en við höfðum trúað í upphafi. Við hljótum að fagna því að við séum nú að treysta í sessi þennan öfluga, kröftuga, síkvika og lifandi samning sem EES-samningurinn er. Við fögnum því að hann nái yfir til þessara nýju ríkja og að um leið hafi tekist að treysta samninginn í sessi.