Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:53:32 (5222)

2004-03-11 12:53:32# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var að mörgu leyti ágæt ræða sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti, eins og hans er von og vísa um þessi mál. Ég ber fulla virðingu fyrir skoðunum hans. Ég virði þær þótt ég sé þeim ósammála. Ég veit að í brjósti hv. þingmanns blundar sams konar tilfinning gagnvart þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þ.e. að hann vill virða okkar skoðanir.

Þess vegna sé ég mig knúinn til að leiðrétta ákveðinn misskilning sem þarna kom fram, að einhver grundvallarstefnubreyting hefði orðið hjá þingflokki okkar eða þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Svo er ekki. Við höfum aldrei verið þess fýsandi að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði yrði sagt upp. Ekki vegna þess að við teljum hann ýkja góðan og ekki vegna þess að við hefðum ekki fremur kosið tvíhliða samkomulag við Evrópusambandið. Við teljum að það hefði verið betra. Vígstaðan er hins vegar allt önnur eftir að á annað borð er gengist inn á þetta samkomulag og það gert. Vígstaða þess sem segir sig frá samkomulaginu um hið Evrópska efnahagssvæði er ekki ýkja sterk þegar að því kæmi að gera tvíhliða samkomulag eins og við alla tíð höfum talið og hefðum talið æskilegt að gera.