Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 12:57:05 (5224)

2004-03-11 12:57:05# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[12:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun gera grein fyrir afstöðu okkar nánar í ræðu á eftir. Ég vil aðeins árétta það sem ég sagði áðan, að af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur ekki átt sér stað nein grundvallarstefnubreyting gagnvart Evrópusambandinu eða hinu Evrópska efnahagssvæði. Það sem um er að ræða núna varðandi þetta þingmál sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vísar til um stækkun hins Evrópska efnahagssvæðis er spurningin um hvort við teljum eðlilegt að Íslendingar standi í vegi fyrir því að lýðræðislegur vilji þeirra þjóða sem nú eru að ganga inn í Evrópusambandið nái fram að ganga. Þetta er spurning um að virða þann lýðræðislega vilja.

Ég legg þetta ekki að jöfnu við stækkun hernaðarbandalagsins NATO. (Gripið fram í: Nú?) Við lögðumst gegn því að NATO yrði stækkað einfaldlega vegna þess að við teljum NATO skaðlegt bandalag, hernaðarbandalag sem við viljum á engan hátt styrkja. Þarna legg ég því ekki hlutina að jöfnu. Við teljum eðlilegt að lýðræðislegur vilji í þeim löndum sem eru núna að ganga í Evrópusambandið og þar af leiðandi inn í Evrópska efnahagssvæðið nái fram að ganga og verði virtur. Það er fullkomlega rökrétt af okkar hálfu.