Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 13:43:28 (5228)

2004-03-11 13:43:28# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru vitaskuld tvær forsendur fyrir andstöðunni á sínum tíma, annars vegar höfðu sumir, ýmsir reyndar, efasemdir um efnahagsþáttinn en tilfinningaríkasta andstaðan var vegna sjálfstæðisins. Menn höfðu virkilega rök fyrir því að þar væru menn að ganga lengra en góðu hófi gegndi gagnvart stjórnarskránni. Þeir sem hér réðu ríkjum hlustuðu ekki á það og þeir vildu ekki að það mál yrði lagt fyrir þjóðaratkvæði.

Hitt er svo annað mál sem ég held að alþingismenn almennt hafi þurft að horfast í augu við, að möguleikarnir til að breyta eða stöðva mál hér í þinginu eru nánast engir. Ef menn ætla að taka einhverjar ákvarðanir Evrópusambandsins og segja nei við þeim hér er auðvitað samningurinn í uppnámi og það vita menn. Hér er því nauðhyggjan alls ráðandi hvað varðar það að taka við þeim niðurstöðum sem hafa orðið hjá Evrópusambandinu um þau málefni sem hingað koma inn.

Þess vegna eru rökin fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið þyngri en ella hvað þessi mál varðar, það er þá a.m.k. meiri möguleiki til þess að hafa áhrif á það sem um er að tefla en annars væri. Auðvitað þurfa Íslendingar að fara yfir þau mál alveg sérstaklega og kannski neyðast þeir til þess að horfast í augu við það að þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið sé að hverfa. Nú ætla Norðmenn líklega að kjósa um aðild að Evrópusambandinu hið þriðja sinnið. Allt er þegar þrennt er, segja menn stundum, og skyldi það verða þannig þar?