Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:18:51 (5234)

2004-03-11 14:18:51# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég minnist þess að skömmu eftir að samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið, eða Efnahagssvæði Evrópu eins og Sigurður Líndal vill kalla þetta, voru samþykktir kom nokkuð djarfleg og hraustleg yfirlýsing frá sameiginlegum vini okkar hv. síðasta ræðumanns, Svavari Gestssyni, sem greiddi atkvæði gegn þessum samningi á þinginu. Ég held það hafi verið einu eða tveimur missirum eftir að samningurinn var gerður að hann sagðist þeirrar skoðunar að við ættum ekki, úr því svona væri komið, að ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta var mikil yfirlýsing vegna þess að hún varðaði grundvallarmál í stjórnmálum, ekki síst á þeim kanti sem ég og hv. síðasti ræðumaður erum á, á vinstri hluta íslenskra stjórnmála.

Það sem ég er einfaldlega að biðja um er ekki að hv. þm. lýsi því yfir hvort hann vill ganga í Evrópusambandið eða ekki, það er ekki umræðuefni dagsins, heldur hvort hann vill ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu eða ekki. Það svar hefur ekki fengist. Þegar það fæst þá óska ég líka eftir því að fá að vita með hvaða hætti hann ætlar annaðhvort að vera í Evrópska efnahagssvæðinu eða að ganga úr því, miðað við þá stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, ef ég skil nokkurn hlut yfir höfuð í þeim flokki lengur, að taka upp tvíhliða samninga við hið mikla Evrópusamband.