Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:22:20 (5236)

2004-03-11 14:22:20# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Nú tekur að líða að því að umræðunni ljúki um nál. utanrmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið. Eins og ég hef áður sagt í umræðunni hefur hún á margan hátt verið fróðleg, ekki síst þeim þingmönnum sem ekki sátu á þingi þegar umræðan fór fram á sínum tíma.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur gert grein fyrir afstöðu sinni og síns flokks, rakið það sem hann metur sem kosti og galla aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Hann hefur skýrt á hverju afstaða hans flokks til Evrópusambandsins er byggð. Hann hefur farið aftur í söguna og gert grein fyrir því af hverju þeir sem fylgja honum að málum voru þeirrar skoðunar á sínum tíma þegar umræðan var sem mest og deilurnar sem harðastar.

Mér finnst þetta þakkarvert í sjálfu sér en það sem ég hef hins vegar engan veginn skilið í þessari umræðu er hið endalausa karp og málflutningur þeirra sem hreykja sér af því að hafa greitt atkvæði með samningnum á sínum tíma en nudda öðrum upp úr því að þeir hafi jafnvel verið klofnir í afstöðu sinni og aðrir flokkar. Margir þeirra sjá í dag, eins og við gerum öll og sýnir sig best í afstöðunni til málsins sem hér er um að ræða, að þetta hefur verið íslensku samfélagi til góðs. En margir sem benda á að aðrir hafi verið klofnir horfast hins vegar ekki í augu við það að ef skoðuð er samsetningin á flokkum þeirra þá samanstanda þeir af þeim sem tóku afstöðu gegn samningnum og þeim sem stóðu með þessum samningi.

Afstaðan var allavega á sínum tíma en ég get ekki séð að þetta karp skili okkur nokkru, en einhvern tímann í náinni framtíð verður ástæða til að fara aftur í ítarlegri umræðu um hvaða rök eru með og hvaða rök eru á móti aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Mér segir svo hugur að það gæti orðið fyrr en seinna ef við skoðum t.d. þróunina í Noregi, að við þurfum að taka afstöðu upp á nýtt og fara djúpt í þessa umræðu.

Framsfl. hefur sagt að hann stefni að því að uppfæra samninginn, fá hann uppfærðan. Ég horfist í augu við það og þykist sjá að það verði aldrei hægt nema með einhver tæknileg atriði. Öðrum breytingum náum við ekki. Mér sýnist líka einsýnt, miðað við allt það sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir á næstu árum vegna stækkunarinnar og ýmissa vandamála og viðfangsefna sem fylgja nýju aðildarríkjunum, að uppfærsla á þessum litla samningi, sem ég held óhætt sé að kalla hann, verði ekki efst á borði þeirra sem starfa innan þess sambands. Ég er hrædd um að það eigi eftir að verða útundan á verkefnalistanum um nokkur ókomin ár, jafnvel bara tæknileg uppfærsla. Ég ætla þó ekki að útiloka neitt í því sambandi.

Ástæðan fyrir því að ég bað um orðið var fyrst og fremst orð hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, þar sem hann fjallaði um Norðurlandasamstarfið. Ég segi eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson að ég held að það væri Norðurlöndunum öllum til góðs ef þau gætu starfað saman sem aðilar að Evrópusambandinu og hefðu öll aðild. Það mundi styrkja þau hvert um sig og styrkja Norðurlöndin sem heild.

Þegar hv. þm. vill hins vegar meina að helmingurinn, eða aðildarþjóðirnar þrjár Svíþjóð, Danmörk og Finnland séu alltaf með hugann í Brussel og séu ekki heils hugar í Norðurlandasamstarfinu þá er ég mjög ósammála. Ég held að veruleg stefnubreyting hafi orðið hjá þeim þjóðum og viðhorfsbreyting og þau vilji vinna meira, betur og markvissar, með hinum Norðurlöndunum að sameiginlegum hagsmunum Norðurlandanna í Evrópusamstarfinu. Margir frammámenn í pólitík þessara landa, bæði menn sem eru þar núna og menn sem hafa verið þar, hafa lagt ríka áherslu á gildi samstöðunnar í Evrópusamvinnunni í heild.

Ég held að aðild þessara þriggja þjóða að Evrópusambandinu væri síst til að koma niður á Norðurlandasamstarfinu. Þvert á móti sjá menn hversu miklu það skiptir að Norðurlandaþjóðir standi saman og starfi saman, þótt sumar þeirra séu utan Evrópusambandsins og sumar innan þess, alveg á sama hátt og sumar eru innan Atlantshafsbandalagsins og sumar fyrir utan það.

Þetta vildi ég sagt hafa en tek fram að ég er hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni um margt sammála þegar kemur að Evrópusambandinu og ýmsum öðrum utanríkismálum. Í því sambandi má nefna vonbrigði nýju aðildarríkjanna með að við og aðrar þjóðir tækjum okkur þennan aðlögunartíma, tveggja ára aðlögunartíma, sem er nú meginefni málsins sem hér er um að ræða. Ég tek undir það að það hljóta vissulega að vera vonbrigði. En ég vildi nefna og taka undir með hv. þm. varðandi þann möguleika sem við höfum á að veita undanþágur frá þessu, að við getum mismunað þessum þjóðum. Ástæðan fyrir að ég vildi hafa orð á því er sú að við höfum öðrum þjóðum framar staðið við bakið á baltnesku löndunum og sjálfstæðisbaráttu þeirra. Við höfum lagt mikla áherslu á forgang þeirra, ef á þyrfti að halda, varðandi aðild að Evrópusambandinu og eins innan Atlantshafsbandalagsins.

Á þessum aðlögunartíma er það m.a. eitt sem við þurfum að taka afstöðu til, ef við ætlum að tryggja okkur lengri aðlögun og hugsanlega í samstarfi við önnur ríki eða í takt við það sem önnur ríki gera, þ.e. þá möguleika að við opnum fyrr fyrir baltnesku löndin.

Af því að norræna samstarfið var nefnt, m.a. í ræðu hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, er líka rétt að rifja upp þann stuðning sem Norðurlöndin hafa sameiginlega veitt baltnesku löndunum á undanförnum árum, í um tíu ár. Norðurlönd hafa aðstoðað við að undirbúa þau undir aðildina að Evrópusambandinu og stutt þau með ráðum og dáð. Þau hafa einnig reynt að fá baltnesku löndin til samstarfs við Norðurlöndin innan Evrópu. Eitt skrefið í þá átt er nýtilkomin aðild baltnesku landanna að Norræna fjárfestingarbankanum. Þar er kominn samstarfsgrundvöllur þar sem Norðurlöndin og baltnesku löndin skipa sér saman sem tiltekið svæði innan Evrópu.

Þessu vildi ég halda til haga. En að lokum, vegna þess að við tölum gjarnan um lýðræðishallann og hina litlu aðild okkar að evrópsku löggjöfinni, þá veltir maður því stundum fyrir sér hvernig við stöndum okkur í utanríkismálunum, hvernig þingið axlar ábyrgð sína sem löggjafarvald. Ég tek undir orð þeirra sem um það hafa fjallað. Ég man ekki, herra forseti, hver hafði í dag orð á að hér væri þörf á ákveðinni Evrópunefnd, ekki bara utanríkismálanefnd eins og við erum með heldur sérstakri Evrópunefnd innan þingsins þar sem sjónarhornið væri fyrst og fremst Evrópurétturinn og Evrópusambandið. Ég tek undir það. Ég tel að brýn þörf sé á slíkri nefnd og held að afstaða manna til slíkrar nefndar fari ekki eftir því hvort þeir eru stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu eða ekki.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að þetta væri bara sá veruleiki sem við búum við. Við erum aðilar að þessum samningi og þurfum að vinna sem best úr honum. Ég held að afstaða til öflugra Evrópustarfs á þinginu með sérstakri Evrópunefnd taki engan veginn mið af því hvort menn sjái fram á aðild okkar að Evrópusambandinu eða það að við stöndum áfram utan þess. Svo ég haldi því til haga hefur svo sem enginn flokkur útilokað um aldur og ævi að gerast aðili að Evrópusambandinu.

Í lokin get ég nefnt að ég veit að danskir þingmenn eiga orðið sinn sérstaka fulltrúa í Brussel. Þeir eru þá ekki háðir embættismönnum um allt heldur á danska þingið sinn sérstaka fulltrúa þar sem starfar náið með Evrópunefndinni í danska þinginu.