Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:37:00 (5240)

2004-03-11 14:37:00# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. ætla ég mér ekki að fara að vigta bjartsýnina á einhverjar vogarskálar, það verða einhverjir aðrir að verða til þess. Mér dettur ekki í hug að tala Norðurlandasamstarfið niður. Það er langur vegur frá. Ég bendi hins vegar á það augljósa. Ég hygg að ég fari rétt með að engin stórskref hafi verið tekin á vettvangi Norðurlandaráðs um umtalsverða réttarbót innan Norðurlanda á seinustu tíu árum. Öll þau skref hafa verið tekin á vettvangi Evrópusambandsins. Það er veruleiki sem við verðum að horfast í augu við. Vissulega hafa stórir áfangar náðst í þessu sambandi eins og hv. þm. benti réttilega á, en það var á árum áður og við búum svo sem enn að því og það er fagnaðarefni. Ég ætla ekki að gera neitt lítið úr því en ég er bara að reyna að lýsa stöðu mála eins og hún er og ég gjörþekki.

Það er líka veruleiki sem við þekkjum vel til að möguleikar okkar til þess að hafa áhrif á gang mála og ákvörðunartöku í Brussel fara eftir ýmsum leiðum. Við erum að reyna það. Við erum m.a. að reyna það í gegnum Norðurlandaráð, ekki endilega af hinum pólitíska vettvangi, þó þar á meðal, heldur líka í gegnum embættismannanefndir á vettvangi Norðurlanda þar sem Íslendingar og Norðmenn eru að reyna að hafa áhrif á kollega sína á Norðurlöndum sem síðan fara með þau skilaboð til Brussel og reyna þar að tala fyrir þeim sjónarmiðum. Það er því verið að reyna að fara Krýsuvíkurleiðir til þess að komast að því borði þar sem ákvarðanir eru teknar. Eftir sem áður eru þetta afskaplega langar og torsóttar leiðir og margir þröskuldar á veginum og við það verðum við að búa meðan ekki verða tekin næstu skref. Því höfum við jafnaðarmenn talað fyrir því tiltölulega afdráttarlaust, og flokkur hv. þm. Jónínu Bjartmarz gerði það líka á tímabili, að við verðum að fara að huga að næstu skrefum til að ná milliliðalausum kontakti.