Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:44:44 (5243)

2004-03-11 14:44:44# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:44]

Frsm. umhvn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. um frv. til laga um verndun hafs og stranda frá umhvn. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund marga gesti til að fara yfir þetta mikilvæga mál. Einnig bárust nefndinni fjölmargar umsagnir sem komu að góðu gagni í vinnu nefndarinnar.

Með frumvarpinu er lögð til heildarlöggjöf sem ætlað er að koma í stað laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Markmið frumvarpsins er hið sama og laganna, að vernda hafið og strendur landsins gegn hvers konar mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins, raskað lífríki þess, spillt umhverfinu eða hindrað lögmæta nýtingu hafs og stranda.

Meðal helstu nýmæla frumvarpsins er að lagt er til það meginmarkmið að eftir mengunaróhapp verði umhverfi hafs og stranda fært til fyrra horfs. Lagafrv. er einnig ætlað að gilda um íslensk skip utan íslenskrar mengunarlögsögu eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum.

Lögunum er skipt í tvo meginframkvæmdakafla. Annars vegar er kveðið almennt á um vernd hafs og stranda, og hins vegar er að finna sérákvæði um varnir og viðbrögð gegn bráðamengun sjávar. Frumvarpið er kaflaskipt með hliðsjón af markmiðum, gildissviði og skilgreiningum, stjórn og skipan, framkvæmd almennra ákvæða laganna, ákvæðum um bráðamengun, þvingunarúrræðum og refsiviðurlögum, ýmsum ákvæðum og ákvæðum til bráðabirgða. Þannig kemur fram í frumvarpinu í fyrsta lagi hvert er markmið laganna, í öðru lagi hverjir skuli sjá til þess að markmiðum laganna verði náð, í þriðja lagi hvaða tækjum skuli beitt til þess að ná fram markmiðum laganna og í fjórða lagi hvaða úrræði séu fyrir hendi til þess að þvinga fram aðgerðir og hver séu refsiviðurlög ef út af er brugðið. Sérákvæði um bráðamengun er að finna í IV. kafla.

Gert er ráð fyrir starfsemi sérstakra svæðisráða og kveðið á um hlutverk þeirra. Ábyrgð á framkvæmd og stjórn á vettvangi þegar bráðamengun hefur orðið er í höndum Umhverfisstofnunar en hafnarstjórar annast hreinsun mengunar innan hafnarsvæða. Lagt er til að Landhelgisgæsla Íslands geti gripið til íhlutunar og gert þær ráðstafanir sem taldar eru nauðsynlegar á hafsvæðinu við Ísland til að koma í veg fyrir, draga úr eða útiloka bráðamengun eða hættu á bráðamengun eftir að óhapp hefur orðið á sjó og að hún hafi um það samráð við Umhverfisstofnun og ef við á hafnarstjóra.

Kveðið er á um að mengunarvaldur verði ábyrgur fyrir bráðamengunartjóni að ákveðnu hámarki þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanna hans sé um að ræða mengun af völdum atvinnurekstrar frá landi eða flutnings á olíu, eiturefnum eða hættulegum efnum. Þeir sem bera ábyrgð á mengun samkvæmt þessu skulu taka ábyrgðartryggingu er nemur sömu fjárhæð en nánar verður kveðið á um vátrygginguna og gildissvið hennar í reglugerð.

Mörg fleiri nýmæli eru í frumvarpinu, en ekki er ástæða til að rekja þau frekar.

Frumvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn. Gerðar hafa verið þó nokkrar breytingar frá því að það var lagt fram síðast og var þar að stórum hluta tekið mið af þeirri umfjöllun sem málið hlaut í umhverfisnefnd á 128. þingi en ekki tókst að ljúka afgreiðslu þess. Vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á málinu milli þinga ákvað nefndin að senda málið til umsagnar og barst fjöldi athugasemda.

Nefndin skoðaði sérstaklega ákvæði 16. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til hlutlæg ábyrgð vegna bráðamengunartjóna að ákveðnu hámarki ef mengunin er af völdum atvinnurekstrar frá landi eða flutnings á olíu, eiturefnum eða hættulegum efnum og þeim sem bæru ábyrgð á slíkri mengun gert að taka ábyrgðartryggingu sem nemur sömu fjárhæð. Fyrst og fremst er um að ræða ábyrgð á bráðamengunartjónum, þ.e. mengun sem verður skyndilega, ekki mengun sem verður smám saman og jafnvel á löngum tíma. Um það gilda almennar reglur skaðabótaréttar. Hér er um nýmæli að ræða í íslenskri umhverfislöggjöf en við umfjöllun um málið kom fram að nágrannalöndin eru flest með lagaákvæði um hlutlæga ábyrgð vegna mengunar frá atvinnurekstri. Hér er stigið það skref að festa í íslenska löggjöf svokallaða mengunarbótareglu.

Að mati nefndarinnar er rétt að leitast við að veita umhverfinu aukna vernd með því að lögfesta ákvæði um hlutlæga ábyrgð þegar í hlut á atvinnurekstur sem kann að teljast hættulegur umhverfinu. Nefndin leitaði eftir upplýsingum um hversu mikið kostnaður atvinnulífsins vegna aukinna útgjalda í iðgjöldum mundi aukast við lögfestingu ákvæðisins. Ekki fengust fullnægjandi svör við því. Enginn sem nefndin leitaði eftir upplýsingum hjá treysti sér til að svara því vegna of margra óvissuþátta. Þó kom fram hjá einum gesta nefndarinnar að þær ábyrgðartryggingar sem fyrirtæki eru með nú taki til mengunartjóna og þær fjárhæðir sem byggt er á í 16. gr. rúmist innan þeirra trygginga. Nýmælið er hins vegar það að kveðið er á um ábyrgð án sakar sem gæti haft í för með sér að bótakröfum fjölgi. Breytingin sem nefndin leggur til á 16. gr. felur í sér að einungis verði heimilt að taka ábyrgðartryggingu. Telur nefndin að of óljóst sé hverjar aðrar fullnægjandi tryggingar geti verið. Til samræmis er lögð til breyting á w-lið 1. mgr. 6. gr.

Ákvæði frumvarpsins eru almenns eðlis þar sem um heildarlöggjöf á þessu sviði er að ræða. Nefndin lítur svo á að ákvæði sérlaga, t.d. siglingalaga, gangi framar ákvæðum frumvarpsins ef ákvæði skarast.

Efni frumvarpsins er þess eðlis að það snertir málefnasvið fleiri ráðherra en umhverfisráðherra sem leggur það fram. Nefndin leggur því til nokkrar breytingar til samræmis við gildandi löggjöf, m.a. ný lög um vaktstöð siglinga og lög um eftirlit með skipum. Einnig er lagt til að heimildarákvæði fyrir samgönguráðherra til að setja reglugerð um siglingar skipa innan mengunarlögsögu í 1. mgr. 20 gr. verði fellt brott þar sem það eigi betur heima í siglingalögum eða öðrum lögum á sviði samgönguráðherra.

Þá vekur nefndin athygli á að í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins er lagt til að lagning sæstrengja og neðansjávarleiðslna verði háð leyfi Umhverfisstofnunar að höfðu samráði við ýmsa aðila, þar á meðal Siglingastofnun. Í gildandi löggjöf er ákvæði í 10. gr. laga um vitamál, nr. 132/1999, um lagningu þeirra. Í því ákvæði kemur fram að til að tryggja öryggi siglinga skuli áður en neðansjávarleiðslur og sæstrengir eru lagðir afla samþykkis Siglingastofnunar fyrir legu þeirra og skal stofnunin leita álits hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Að mati nefndarinnar verður að skoða sérstaklega hvernig leyfisveitingum vegna neðansjávarleiðslna og sæstrengja skuli hagað. Þetta er mál sem varðar nokkurn fjölda stofnana og fyrirtækja og því væri farsælast að þau ráðuneyti sem málið varðar skoðuðu heildstætt hvernig haga skuli leyfisveitingu eða eftir atvikum samþykki fyrir legu sæstrengja og neðansjávarleiðslna. Leggur nefndin því til að 2. mgr. 9. gr. verði breytt á þann veg að leita skuli samþykkis hjá Umhverfisstofnun áður en sæstrengir eða neðansjávarleiðslur eru lagðar. Ekki verði kveðið á um leyfisveitingar fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um hvar þessum málum verður skipað.

Nefndin leggur einnig til breytingu á fyrirsögn frumvarpsins. Við umfjöllun um málið var bent á að ákvæði frumvarpsins beindust fyrst og fremst að mengunarvörnum. Engin lífríkisverndarákvæði væru í því og fyrirsögn frumvarpsins væri því ekki í samræmi við efni þess. Að mati nefndarinnar er um réttmæta ábendingu að ræða og leggur hún því til að fyrirsögn frumvarpsins verði ,,frumvarp til laga um varnir gegn mengun hafs og stranda``.

Einnig er ástæða til að árétta breytingar á 1. mgr. 12. gr. sem varðar tilkynningarskyldu vegna losunar, varps og mengunar. Þar er lagt til að tilkynningarskyldan nái einnig til íslenskra skipa á úthafinu eftir því sem við á og til samræmis við skuldbindingar Íslands í alþjóðasamningum, en þeir eru tilgreindir í greinargerð með frumvarpinu.

Lögð er til breyting á gildistökuákvæði til að gefa nauðsynlegt svigrúm til undirbúnings áður en lögin öðlast gildi. Bráðabirgðaákvæði I er auk þess fellt undir gildistöku\-ákvæði. Jafnframt er lagt til að bráðabirgðaákvæði II sé fellt brott en að mati nefndarinnar er það of opið. Telur nefndin að það svigrúm sem veitt er með rýmra gildistökuákvæði sé nægilegt.

Umhverfisnefnd gerir margar fleiri tillögur um breytingar á frumvarpinu sem ekki er ástæða til að rekja sérstaklega þar sem þær eru mjög nákvæmlega skýrðar í nál. Nefndin mælir einróma með samþykkt frumvarpsins, en hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Mörður Árnason, Jón Kr. Óskarsson og Atli Gíslason skrifa undir nál. með fyrirvara. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Nokkur umræða varð í umhvn. um ákvæði 13. gr. um svæðisráð. Þar er gert ráð fyrir því að landið skiptist í viðbragðssvæði vegna bráðamengunar og skal svæðisráð starfa á hverju svæði kosið af sveitarstjórnum á svæðinu, til fjögurra ára í senn. Jafnframt eigi þar sæti fulltrúi atvinnurekenda á svæðinu.

Hlutverk svæðisráða verður fyrst og fremst að hafa umsjón með mengunarvarnabúnaði sem er í eigu hafnanna, reka hann og halda honum við, sem og annast fræðslu starfsmanna hafna um viðbúnað við bráðamengun, sjá um æfingu og þjálfun í viðbrögðum og vera Umhverfisstofnun til ráðgjafar um aðgerðir vegna bráðamengunar samkvæmt lögum. Ekki er gerð tillaga um fjölda eftirlitssvæða eða mörk þeirra í lögunum heldur er gert ráð fyrir að ráðherra ákveði það í samræmi við flokkun hafna með hliðsjón af mengunarvarnabúnaði og kveði nánar á um verksvið svæðisráða í reglugerð.

Skiptar skoðanir eru í umhvn. um efni 13. gr. Ég vænti þess að það komi fram hjá einstökum nefndarmönnum í umræðum á eftir. Rétt er að geta þess í því sambandi að Samband íslenskra sveitarfélaga gerir ekki athugasemdir við þessa tilhögun að öðru leyti en því að það leggst gegn því að fullrúi atvinnurekandans sitji í svæðisráði. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem kom á fund nefndarinnar lét hins vegar þá skoðun í ljós að það þyrfti aukið samstarf milli sveitarfélaga á þessu sviði. Svæðisráðin eru ágætur vettvangur til þess. Þeim er ætlað afmarkað hlutverk á sínu fagsviði.

Ég vil einnig geta þess að Reykjavíkurborg fékk frumvarpið til umsagnar og gerir engar athugasemdir við 13. gr.

Frv. til laga um verndun hafs og stranda hefur fengið mjög ítarlega umfjöllun í umhvn. Náðst hefur ágæt sátt um þær brtt. sem nefndin hefur lagt fram. Hér er um mjög flókið en jafnframt mikilvægt mál að ræða fyrir okkur Íslendinga og augljóst að vanda þarf til verka til að markmið frv. nái fram að ganga, þ.e. að vernda hafið og strendur landsins, gegn mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess, spillt umhverfinu eða hindrað lögmæta nýtingu hafs og stranda.

Að lokum vil ég þakka hv. þingmönnum í umhvn. fyrir einkar ánægjulegt samstarf við umfjöllun málsins í þingnefndinni.