Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:01:03 (5246)

2004-03-11 15:01:03# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég get fallist á það ef allar aðrar leiðir eru fullreyndar að eðlilegt sé að loka. En það er spurning hvort ekki sé eðlilegt að það sé eitthvert millistig frá áminningu og yfir í lokun.

Síðan hef ég áhyggjur af öðru í sambandi við frv. og það varðar svæðisráðin. Svæðisráðin hafa umsjónarhlutverk og samræmingarhlutverki að gegna. En svæði þeirra er ekki skilgreint. Má vera að það henti að skilgreina þau eftir á. En kannski felst hætta í því að svæðisráðin hafa þetta umsjónarhlutverk sem Umhverfisstofnun hefur lögum samkvæmt. Því er hætta á að þarna sé ábyrgðin á tveimur stöðum, annars vegar hjá svæðisráðinu og hins vegar hjá Umhverfisstofnun. Það er spurning þegar upp koma mál hvort ekki sé mjög gott að hafa það skýrt hvar ábyrgðin á samræmingarhlutverkinu liggi, hvort hún ætti ekki að liggja einmitt hjá Umhverfisstofnun og allur kostnaðurinn að liggja hjá Umhverfisstofnun í stað þess að koma þessu samræmingarhlutverki að einhverju leyti yfir á svæðisráðin og þá kostnaðinum á sveitarfélögin, hvort, eins og ég segi, Umhverfisstofnun ætti ekki að sjá alfarið um þá hlið.