Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:19:24 (5251)

2004-03-11 15:19:24# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju minni með frv. Markmiðið er göfugt, að vernda hafið og strendur landsins gegn mengun og athöfnum sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað auðlindirnar, raskað lífríki og spillt umhverfi o.s.frv. Það er einnig göfugt að markmið laganna eftir mengunaróhöpp er að færa umhverfið aftur til fyrra horfs.

Ég sé að lögin gilda einnig um íslensk skip utan mengunarlögsögu Íslands, eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig í alþjóðasáttmálum. Þetta er fagnaðarefni og ég hyggst einmitt láta efni ræðu minnar beinast svolítið að skipum og skipsflökum.

Hvað varðar það atriði að lögin eiga að gilda um íslensk skip utan mengunarlögsögu, flögrar hugurinn fljótlega að strandi sem varð við Noreg í júní að mig minnir árið 2000 þegar Guðrún Gísladóttir steytti á skeri og sökk. Flakið liggur enn þá við Lófót í Noregi og mér hefur alltaf þótt það hneisa hvernig við Íslendingar á vissan hátt að mér fannst, og ég fylgdist mjög grannt með þessu málum og hef alltaf gert, að við hálft í hvoru stungum af og skildum flakið eftir. Það var að vísu sendur björgunarleiðangur frá Íslandi til að reyna að ná því upp en það mistókst og einhvern veginn held ég að þær aðgerðir hafi allar verið hálft í hvoru í skötulíki og verið af vanefnum gerðar þó viljinn væri vissulega fyrir hendi. Hér hefðu íslensk stjórnvöld að sjálfsögðu átt að taka ábyrgð og sjá til þess að flakinu yrði lyft og mál okkar á þessum stað yrðu gerð upp. Það var álitshnekkir fyrir Íslendinga hvernig við stóðum að málinu og er enn í dag álitshnekkir fyrir okkur út á við, sérstaklega í Noregi. Ég hygg að Norðmenn séu enn í dag hálfreiðir okkur fyrir að hafa ekki staðið betur að málum en raun bar vitni.

Ég sé í 4. gr. laganna að umhvrh. fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum. Ég sakna þess mjög að sjá ekki hæstv. umhvrh. í þingsal þegar málið er tekið til 2. umr. Ég hefði líka gjarnan viljað sjá hæstv. sjútvrh. hér til að taka þátt í umræðum um þetta mikilvæga mál sem varðar hafið í kringum Ísland og raunar víðar.

Ég hnýt um það að sá sem veldur mengun í mengunarlögsögu Íslands ber ábyrgð samkvæmt almennum skaðabótareglum á því tjóni sem verður rakið til mengunarinnar. Eigendum skipa mun þó heimilt að takmarka fjárhagslega ábyrgð sína í samræmi við gildandi lagaákvæði.

Ef hætta er á mengun hafs og stranda á sá sem ber ábyrgð á menguninni að gera allt sem hann getur til að koma í veg fyrir hana eða draga úr henni. Hann ber einnig ábyrgð á því tjóni sem aðgerðir hans eða aðgerðaleysi valda öðrum. Það er í sjálfu sér ágætisákvæði.

En ef maður heldur áfram að blaða í lögunum stendur í 15. gr., með leyfi forseta, í 3. mgr.:

,,Þegar mengun hefur orðið á hafi úti skal Umhverfisstofnun grípa til aðgerða. Þegar hætta er talin á að mengun muni hljótast af strandi skips eða frá starfsemi á landi eða á hafi skal Umhverfisstofnun gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á mengun.``

Þegar ég las þennan lagabálk og var að velta vöngum yfir honum kom náttúrlega strax í hugann nýlegt strand við suðurströnd Íslands í Skarðsfjöru rétt austan við Vík í Mýrdal. Þar varð því miður mjög bagalegt slys á dögunum, sem betur fer varð mannbjörg en skipið liggur núna uppi í fjöru og velkist þar um. Ég vona svo sannarlega að það takist að bjarga því. Það er mikið áfall fyrir íslensku þjóðina að missa svo dýrmætt atvinnutæki úr sjávarútveginum því skipin eru náttúrlega tekjuöflunartæki fyrir þjóðina alla. Ég vona að það takist að ná því aftur á flot en fari allt á versta veg, að skipið náist ekki út, hvað þá?

Grípum niður í 20 gr. laganna, með leyfi forseta:

,,Hafi skip, pallar eða önnur mannvirki á sjó strandað þannig að þeim verði ekki komið á flot ber eiganda að fjarlægja þau sem fyrst og eigi síðar en sex mánuðum eftir strand. Hafi skip, pallar eða önnur mannvirki á sjó eða loftför sokkið getur Umhverfisstofnun krafist þess að þau verði fjarlægð. Telji eigandi ill- eða ógerlegt að fjarlægja strandað eða sokkið skip, pall, loftfar eða annað mannvirki er honum heimilt að leggja fram beiðni til Umhverfisstofnunar um að það skuli vera óhreyft þar sem það er. Slíkri beiðni skal fylgja áhættumat þar sem gerð er grein fyrir umhverfislegum ávinningi ásamt kostnaði við að fjarlægja hið sokkna skip, pall eða annað mannvirki. Við afgreiðslu málsins skal Umhverfisstofnun hafa samráð við viðkomandi sveitarfélag.``

Eiganda skipsins ber sem sagt skylda til að fjarlægja það af strandstað. Gott og vel. Hér er líka talað um að það eigi að fara fram eitthvað sem kallað er áhættumat. Þá spyr ég: Hver á að bera kostnaðinn af slíku mati og út á hvað á slíkt mat að ganga? Mér finnst svolítið óljós skilgreiningin út á hvað slíkt mat á að ganga. Slíkt mat gæti orðið þó nokkuð umfangsmikið og þó nokkuð dýrt.

Grípum niður í 23. gr., dagsektir. Ég vitna aftur til lagabálksins, með leyfi forseta:

,,Þegar aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur Umhverfisstofnun eða viðkomandi heilbrigðisnefnd, sbr. 2. mgr. 4. gr., ákveðið honum sektir allt að 500.000 kr. á dag þar til úr er bætt.``

Ef eigandi skipsins fjarlægir það ekki er því hægt að dæma hann í dagsektir upp á 0,5 millj. kr. Það eru ansi háar sektir.

Þegar ég var að velta þessu fyrir mér fór ég að hugsa um eitt: Hvenær munu þessi lög hugsanlega taka gildi og hvað með nýjasta strandið við suðurströndina, mun það og hugsanlegar afleiðingar þess, þ.e. að skipið náist ekki út, falla undir þennan lagabálk? Nú gerist strandið áður en lögin taka gildi en skipið verður þarna samt sem áður --- ef það næst ekki út --- eftir að lögin hafa tekið gildi og hvað þá? Ber í raun og veru enginn ábyrgð á því hvað verður um skipið í dag? Ég man eftir málefni Víkartinds á sínum tíma, ég bjó reyndar erlendis þá og fylgdist með því úr fjarlægð, en ef ég man rétt var einmitt frekar óljóst hvað gera ætti í því tilfelli. Þetta eru spurningar sem mér þætti vænt um að fá svör við því að hér gæti orðið stórmál ef svo illa fer að Baldvin Þorsteinsson náist ekki á flot og beri beinin í sandinum eins og svo mörg önnur skip sem því miður hafa þurft að hvíla í þeim mikla skipakirkjugarði sem suðurströnd er og hefur verið í gegnum áratugina og aldirnar. En nóg um það.

Herra forseti. Í frv. á bls. 13 er bráðabirgðaákvæði III sem mér finnst líka svolítið athyglisvert. Þar segir að yfirvöld og umhvrh. --- tilgreinir það svo sem ekki nánar --- eigi að gera áætlun um hreinsun stranda og hafnarsvæða af skipsflökum og skipum í óreiðu og kostnað sem af því leiðir. Áætlunin á að vera tilbúin ekki síðar en 1. júlí á næsta ári og ekki koma til framkvæmda seinna en 1. janúar 2006 og á að vera búið að hreinsa hafnirnar fyrir árslok 2008.

Bent hefur verið á það í sölum Alþingis að víða liggja ónotuð skip bundin við bryggju, úrelt skip jafnvel, skip í niðurníðslu. Við þurfum ekki að fara lengra en niður að Reykjavíkurhöfn, sem er nánast að verða skipakirkjugarður, þar sem skipum hefur verið hrúgað inn og liggja þar árum saman. Fleiri hafnir mætti nefna sem dæmi. Í Hafnarfjarðarhöfn lágu til langs tíma, og liggja sennilega enn, skip sem ekki voru til neinnar prýði --- og það var fjölmiðlamatur á sínum tíma --- enginn vissi hver átti þau og enginn vissi hvað átti að gera við þau. En ljóst er að af þessu er mikill kostnaður.

Ég vil í framhaldi af því og í sambandi við það minna á ágætis frv. til laga sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lagði fyrir þingið sl. haust um breytingu á lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, með síðari breytingum. Frumvarpið gengur út á að leyft skuli að sökkva skipum í sæ að því tilskildu að búið sé að hreinsa úr þeim öll mengandi efni sem geta valdið náttúrunni tjóni, að stálinu sé sökkt, eða réttara sagt eins og segir í svokölluðum OSPAR-samningi, Ósló-Parísarsamningi um verndun Norðaustur-Atlantshafsins sem var undirritaður haustið 1992 og tók gildi 1998, og við Íslendingar erum skuldbundnir, er heimilað varp skipa í hafið til loka þessa árs.

Hv. formaður umhvn., Sigríður A. Þórðardóttir, getur kannski svarað mér því hvort málið hafi komið til umræðu í umhvn., ég reikna með því að það hafi verið sent þangað, og á hvaða stigum það er og hvort þess sé að vænta að það komi aftur til 2. umr. í Alþingi, því tíminn líður hratt. Hann er ekki að vinna með okkur í þessu máli. Við höfum bara frest til loka þessa árs ef við ætlum að sökkva flökunum í sæ einhvers staðar við landið. Ég hef íhugað þetta og komist að þeirri niðurstöðu að ég er hlynntur því. Ég tel að það sé ekki til skaða fyrir náttúruna ef við gerum þetta með réttum hætti. Þvert á móti gæti það orðið til bóta. Þetta getur skapað búsvæði fyrir fiska. Það mætti hugsa sér að skipunum yrði sökkt á svæðum sem við vitum að hafa verið kóralsvæði, svæði sem geyma mikið lífríki og hagstæð skilyrði til slíks lífríkis sem við höfum því miður eyðilagt með togveiðum. Við gætum reynt að bæta þann skaða með því að sökkva skipunum á þessum slóðum. Við höfum séð það á neðansjávarmyndum að skipsflök draga að sér mikið líf og fiskur laðast að svona stöðum. Þetta gæti orðið til hagsbóta frekar en eitthvað annað. Með tíð og tíma eyðast skipsflök í hafinu. Þau vara ekki til eilífðar. Þau tærast upp og eyðast.

Ég held að ef farið verður í að drífa lagafrv. í gegnum þingið þarf að hefja strax undirbúning að því að gera skipin klár þannig að hægt sé að sökkva þeim, það þarf að hreinsa þau og gera þau tilbúin og náttúrlega velja þau skip sem á að sökkva. Það þarf að finna hentugt svæði til að sökkva þeim skipum á, í samvinnu við t.d. Hafrannsóknastofnun og ekki síst sjómenn sem vita manna mest um lífríkið í hafinu kringum Ísland, vita manna mest hvar hentugast væri að velja slíkum skipakirkjugörðum stað. Ég vona því svo sannarlega að frv. hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar verði drifið í gegnum þingið, helst sem allra fyrst.