Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:32:34 (5252)

2004-03-11 15:32:34# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., Frsm. SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Frsm. umhvn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bregðast við tveimur atriðum í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, þ.e. varðandi gildistökuna. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. október á þessu ári og fram að þeim tíma gilda að sjálfsögðu lög um varnir gegn mengun sjávar. Þetta er algerlega skýrt.

Síðan hvað varðar það frv. sem hv. þm. Einar Guðfinnsson hefur lagt fram þá hefur umhvn. ekki enn þá tekið afstöðu til þess. Það er mjög skammt síðan því frv. var vísað til nefndarinnar. Ég hef hins vegar skoðað umsagnir sem hafa legið fyrir vegna þess frv. því að það er endurflutt mál. Það er alveg ljóst að skiptar skoðanir eru um það mál. Eins er það alveg hárrétt sem kom fram í máli hv. þm. að í bráðabirgðaákvæði III í frv. um varnir gegn mengun hafs og stranda er gert ráð fyrir að gerð verði áætlun um hreinsun og að því átaki verði þá lokið 2008.