Varnir gegn mengun hafs og stranda

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:34:11 (5253)

2004-03-11 15:34:11# 130. lþ. 82.5 fundur 162. mál: #A varnir gegn mengun hafs og stranda# (heildarlög) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi ég skilið þetta rétt fellur þetta nýjasta strand ,,ef illa fer`` ekki undir þessi lög þar sem svo langur tími líður þar til þessi lög taka gildi að það mun þá væntanlega ekki falla undir þau.

Annað sem ég hnýt um er að samkvæmt þessum nýju lögum er einmitt áætlað að farga þeim skipum sem liggja eins og hráviði í höfnum allt í kringum landið. Þá langar mig til vita hvort eitthvað hafi verið hugleitt hver eigi að bera kostnaðinn af því að farga þessum skipum. Bent hefur verið á að það er mjög dýrt. Meginástæðan fyrir því að þau liggja er að menn telja ekki svara kostnaði að rífa þau í brotajárn. Enginn hér á landi sér neinn pening í að gera það. Menn telja sem sagt að allt of dýrt yrði að fara út í miklar förgunaraðgerðir. Mér þætti því vænt um að heyra hvort það hafi verið hugsað til enda hver eigi að borga brúsann af slíkri aðgerð.